Golfklúbbur í Florída, sem er í eigu Donald J. Trump, Bandaríkjaforseta, hefur verið dæmdur til að greiða fyrrum meðlimum klúbbsins 5,7 milljónir Bandaríkjadala, eða um 700 milljónir króna, vegna vanefnda klúbbsins.
Eftir að Trump eignaðist hann árið 2012 voru himinhá gjöld klúbbsins aldrei greidd 65 meðlimum hans til baka sem höfðu sagt sig úr klúbbnum áður en Trump eignaðist hann.
Í umfjöllun Reuters kemur fram að dómarinn, Kenneth Marra í dómstólnum í West Palm Beach, hafi komist að þeirri niðurstöðu að Trump hafi ekki haft heimild til að halda eftir þessum greiðslum.
Óhætt er að segja að málið sé óheppilegt fyrir Bandaríkjaforseta enda fordæmalaust með öllu, eins og margt sem að honum snýr í embættinu. Skömmu áður en Trump tók við sem forseti samdi hann um að greiða fyrrverandi nemendum í skóla sem hann hélt úti, Trump University, 25 milljónir Bandaríkjadala í bætur vegna þess að skólinn reyndist með öllu metnaðarlaus og uppfylltu námskeið hans ekki lágmarkskröfur eða markmið nemenda.
Trump greiddi nemendunum upphæðina skömmu áður en hann tók við embætti, eða 18. janúar.
Fleiri málsóknir beinast nú gegn honum, meðal annars vegna tilskipunar hans um að banna íbúum sjö ríkja þar sem múslimatrú er í meirihluta að koma til Bandaríkjanna. Washington ríki var fyrsta ríkið til að höfða mál gegn forsetanum persónulega og bandaríska ríkinu sömuleiðis, en bannið er að mati Washington ríkis skýrt brot á stjórnarskránni.