Ísland stendur sig enn og aftur verst í því að innleiða EES tilskipanir sem EFTA ríkin hafa skuldbundið sig til að innleiða í lög innan tímamarka. Þetta kemur fram í nýju frammistöðumati frá ESA, eftirlitsstofnun EFTA.
Þetta er iðulega kallað innleiðingarhalli á íslensku. Eftir að frammistaða Íslands í því að innleiða reglur frá Evrópu hafði batnað fram stöðugt frá nóvember 2013 til nóvember 2015 hefur frammistaðan nú versnað í tveimur frammistöðumötum í röð. Nú eru 18 tilskipanir sem Ísland hefur ekki innleitt innan tímamarka, sem gerir innleiðingarhalla upp á 2,2%. Hin ríkin í EFTA, Liechtenstein og Noregur, standa sig mun betur. Innleiðingarhalli Noregs er 0,4% og Liechtenstein er með 0,9% halla. Meðal innleiðingarhalli í Evrópusambandsríkjum er 0,7 prósent.
Upptaka EES gerða er grundvöllur fyrir aðgengi Íslands og hinna EES ríkjanna að innri markaði Evrópusambandsins. Það að Ísland standi sig svona illa í innleiðingum þýðir að íslenskir ríkisborgarar, og ríkisborgarar innan alls EES svæðisins, njóta ekki að fullu kosta innri markaðarins.
Af þeim átján tilskipunum sem Ísland á eftir að innleiða tengjast átta þeirra vöruflutningum. Þrjár hafa með umhverfismál að gera, tvær fjármálaþjónustu og tvær samgöngumálum. Ein tengist orkumálum, ein vinnuafli og ein heilbrigðis- og öryggismálum.
Í síðasta frammistöðumati ESA, frá því um mitt síðasta ár, var innleiðingarhallinn 2%. Þá sagði ESA: „Þegar EES-ríki innleiðir ekki tilskipun innri markaðarins á réttum tíma fá einstaklingar og fyrirtæki ekki notið þeirra réttinda sem hún felur í sér. Íslensk fyrirtæki kunna til dæmis að útilokast frá aðgangi að innri markaðinum ef samræmdar tæknilegar reglur eru ekki innleiddar. Því lengur sem innleiðing dregst, því alvarlegri geta afleiðingarnar orðið.“
ESA hefur ítrekað sagt að Ísland þurfi að standa sig miklu betur til að standa við skuldbindingar sínar gagnvart innleiðingu á lögum og reglum EES samningins.
Síðasta ríkisstjórn var með Evrópustefnu, þar sem meðal annars var lýst yfir að ráðast ætti í mikið átak til að bæta innleiðingarhallann. Á fyrri hluta ársins 2015 átti hallinn að vera kominn undir 1%. Það varð hins vegar aldrei, og lægst fór hallinn í 1,8% áður en hann tók að aukast á ný.