Ríkisstjórn Theresu May í Bretlandi hefur birt í dag áætlun sína um það með hvaða hætti landið muni segja skilið við Evrópusambandið. Neðri deild breska þingsins samþykkti í gær að viðræður við sambandið um útgönguna yrðu hafnar og hafa stjórnvöld þegar brugðist við með því að birta upplýsingar um áætlunina á vefnum.
Samtals er rætt um tólf markmið í áætluninni, sem í stórum dráttum snýst um að endursemja um breska hagsmuni, vítt og breitt, og ná betri stjórn á landamærum Bretlands.
Þar kemur meðal annars fram að Bretland muni samhliða útgöngu úr Evrópusambandinu segja skilið við innri markað sambandsins, eins og May var búin að tilkynna um að yrði gert. Því fylgir meðal annars að yfirgefa tollabandalagið og viðskiptasamninginn eins og hann leggur sig sem innri markaðurinn hvílir á.
Markmiðið er síðan að gera sjálfstæða viðskiptasamninga við önnur ríki þar sem breskir hagsmunir eru verndaðir. Bresk stjórnvöld stefna að því að semja sérstaklega við Evrópusambandið um fríverslun og tollamál, en ekki er útfært í áætluninni hvernig sú vinna verður skipulögð. Þá mun Bretland alfarið fara undan æðsta dómsvaldi Evrópusambandsins við útgöngu.
Breska stjórnin hyggst koma á nýju kerfi til þess að stýra komum innflytjenda frá ríkjum Evrópusambandsins sem yrði hugsanlega byggt á aðlögunartíma til þess að atvinnulífið geti aðlagaðst breyttum aðstæðum.
Lögð verður áhersla á fólk sem hefur menntun eða reynslu sem þörf er á í Bretlandi á hverjum tíma, og fólk sem hyggst stunda nám í landinu.
Samkvæmt áætluninni verður lögð áhersla á að tryggja eins greiðan aðgang um landamærin á milli Írlands og Norður-Írlands og mögulegt er. Ætlunin að færa meira vald til Skotlands, Wales og Norður-Írlands samhliða því sem völd verða endurheimt frá Evrópusambandinu.