Kvikmyndir eftir karla eru í miklum meirihluta þeirra kvikmynda sem teknar eru til sýninga á Íslandi, en konur leikstýrðu aðeins sjö prósent af kvikmyndum sem teknar voru til sýninga í íslenskum kvikmyndahúsum 2016. Sama kynjahlutfall er á kvikmyndum sem sjónvarpað var í RÚV 2016, konur leikstýrðu aðeins sjö prósent kvikmynda sem þar voru sýndar.
Þetta kemur fram á vef Kvenréttindafélags Íslands, en félagið og Stockholms feministiska filmfestival hafa unnið rannsókn á kvikmyndum sem teknar voru til sýningar í íslenskum kvikmyndahúsum og á RÚV árið 2016. Var þetta umræðuefni til umfjöllunar á málfundi í gær, þar sem spurt var; „Hvað er svona merkilegt við það? Kynjabilið á hvíta tjaldinu“.
Það að fólk hafi aðallega möguleika til að kynnast reynslu og sögu karla í kvikmyndum hefur slæm áhrif á kynjajafnrétti í samfélaginu, er eitt af því sem rannsóknin leiðir fram.
„Kvikmyndir hafa áhrif á það hvernig fólk sér sig sjálft sig heiminn. Kvikmyndir og sjónvarpsefni á að endurspegla ólíka reynsluheima og brjóta upp einhæfar hugmyndir um karla og konur,“ segir Fríða Rós Valdimarsdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands, í viðtali við vef félagsins. „Sögurnar sem birtast á hvíta tjaldinu á Íslandi eru sögur karla. Hvar eru kvikmyndirnar sem konur segja, sem segja frá reynslu kvenna?“ segir Fríða.
Um rannsóknina:
Rannsóknin náði til allra kvikmynda sem teknar voru til sýningar í íslenskum kvikmyndahúsum árið 2016, sem og kvikmyndir sýndar í kvikmyndahúsum í Danmörku 2015 og í kvikmyndahúsum og á Netflix í Svíþjóð árið 2016. Kynjahlutfallið er langverst á Íslandi.
Ísland
- Rannsóknin náði til allra kvikmynda sem sýndar voru í íslenskum kvikmyndahúsum árið 2016 (187 kvikmyndir)
- 93% kvikmynda teknar til sýninga í íslenskum kvikmyndahúsum var leikstýrt af körlum
- Karlar voru 84% handritshöfunda
- Karlar voru 75% framleiðenda
- Karlar voru 71% aðalsöguhetja
- Aðeins 4,5 % kvikmynda sýndar í íslenskum kvikmyndahúsum 2016 var bæði leikstýrt af konu og höfðu konu í aðalhlutverki
- Rannsóknin náði til allra kvikmynda sem sýndar voru á RÚV 2016 (239 kvikmyndir)
- 93% kvikmynda teknar til sýninga á RÚV var leikstýrt af körlum
- 31 íslensk kvikmynd var sýnd á RÚV, þar af var 2 leikstýrt af konum
Danmörk
- Rannsóknin náði til allra kvikmynda sýndar í dönskum kvikmyndahúsum árið 2015 (238 kvikmyndir)
- 87% kvikmynda teknar til sýninga í dönskum kvikmyndahúsum var leikstýrt af körlum
- Karlar voru 84% handritshöfunda
- Karlar voru 74% framleiðenda
- Karlar voru 69% aðalsöguhetja
- Aðeins 6% kvikmynda sýndar í dönskum kvikmyndahúsum 2015 var bæði leikstýrt af konu og höfðu konu í aðalhlutverki
- 91% heimsókna í kvikmyndahús var á kvikmyndir leikstýrt af körlum (aðsókn)
Svíþjóð
- Rannsóknin náði til allra kvikmynda og sjónvarpsþátta sem frumsýnd voru á Netflix í Svíþjóð árið 2016
- 96% kvikmynda frumsýndar á Netflix var leikstýrt af körlum
- 87% handritshöfunda kvikmynda á Netflix voru karlar
- 74% framleiðenda kvikmynda á Netflix voru karlar
- 78% aðalsöguhetja kvikmynda á Netflix voru karlar
- 1,5% kvikmynda á Netflix var bæði leikstýrt af konu og höfðu konu í aðalhlutverki
- 85% sjónvarpsþátta frumsýndir á Netflix var leikstýrt af körlum
- Rannsóknin náði til kvikmynda sem teknar voru til sýninga í sænskum kvikmyndahúsum 1. janúar 2016 til 1 desember 2016
- 80% kvikmynda teknar til sýninga í sænskum kvikmyndahúsum var leikstýrt af körlum
- Karlar voru 74% handritshöfunda
- Karlar voru 69% framleiðenda
- 90% heimsókna í kvikmyndahús var á kvikmyndir leikstýrt af körlum (aðsókn)
Rannsóknin var unnin sem hluti af verkefninu „Öka jämställdheten inom filmbranschen i Norden“, í samvinnu Stockholms feministiska filmfestival, Kvinderådet í Danmörku og Kvenréttindafélags Íslands. Verkefnið er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni.