Úlfar Steindórsson, Anna Guðný Aradóttir og Anna G. Sverrisdóttir hafa sagt sig úr stjórnum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og Birtu lífeyrissjóði frá og með deginum í dag.
Þetta er gert vegna þess að þau sitja einnig í stjórnum skráðra hlutafélaga, og það samræmist ekki nýjum reglum Samtaka atvinnulífsins um skipan fulltrúa SA í stjórnir lífeyrissjóða. Í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins tóku þau þessa ákvörðun að eigin frumkvæði, en þetta er gert til að girða fyrir mögulega hagsmunaárekstra.
Reglurnar voru settar og samþykktar af stjórn SA í byrjun ársins, til þess að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra, grun um hagsmunaárekstra og til að tryggja óhæði stjórnarmanna lífeyrissjóða.
Í Fréttablaðinu í dag kom fram að ekki hefði verið rætt um að Úlfar Steindórsson léti af stjórnarsetu í Lífeyrissjóði verslunarmanna eftir að hann var kjörinn stjórnarformaður Icelandair, þrátt fyrir reglurnar. Úlfar hefur setið í stjórn Icelandair frá árinu 2010, og var endurkjörinn í stjórnina síðastliðinn föstudag, í fyrsta sinn eftir að reglurnar hjá SA tóku gildi. Úlfar segir í Fréttablaðinu að hann hafi ekki vitað af reglunum. „Þegar ég var beðinn um að setjast í stjórn LV þá var ég fyrir í stjórn Icelandair. Ef SA hafa sett þessar reglur þá hljóta þeir að koma til mín og láta mig vita af þeim.“
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, sagði jafnframt í Fréttablaðinu að reglurnar hafi verið hugsaðar fyrir nýja stjórnarmenn sem yrðu skipaðir í stjórnir lífeyrissjóða eftir setningu reglnanna, en ekki fyrir eldri stjórnarmenn. Til greina kæmi að fara yfir stöðu Úlfars.
Nú hefur Úlfar sagt sig úr stjórn LV, og það gerði Anna G. Sverrisdóttir, varamaður í stjórninni, líka. Þá hættir Anna Guðný í stjórn Birtu lífeyrissjóðs.
Í tilkynningu frá SA segir að ljóst sé að betur hefði mátt standa að kynningu á breytingunum til stjórnarfólks, og hlutaðeigandi eru beðnir velvirðingar á því. „Aðalatriðið er að faglega er staðið að skipan stjórnarmanna í lífeyrissjóði af hálfu SA. Nýjar reglur gefa hæfum einstaklingum tækifæri á að bjóða fram krafta sína til starfa í stjórnum lífeyrissjóða með hagsmuni sjóðsfélaga að leiðarljósi. Lífeyrissjóðirnir og viðfangsefni þeirra eru gríðarlega mikilvæg fyrir framtíðarvelferð þjóðarinnar.“