Búist er við því að Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, neiti beiðni Skota um þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði að sinni. Hún er sögð vilja bíða með slíka þjóðaratkvæðagreiðslu fram yfir að niðurstaða útgöngu Breta úr Evrópusambandinu er ljós.
Frá þessu er greint í breskum fjölmiðlum. Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, ætlar að leita samþykkis skoska þingsins fyrir því að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands, en hún tilkynnti það á mánudaginn. Hún sér fyrir sér að slík atkvæðagreiðsla færi fram einhvern tímann á tímabilinu frá hausti 2018 til vors 2019, að minnsta kosti áður en útgöngusamningur úr Evrópusambandinu liggur fyrir.
Í breskum fjölmiðlum er haft eftir David Mundell, ráðherranum gagnvart Skotlandi, að Skotland muni yfirgefa Evrópusambandið ásamt öðrum hlutum Bretlands, og sagði fáránlegt að halda því fram að önnur atkvæðagreiðsla um sjálfstæði gæti komið í veg fyrir þetta. Hann sagði við the Herald að tímaramminn sem Nicola Sturgeon væri að vinna með myndi hafa í för með sér að þjóðaratkvæðagreiðslan yrði ekki lögleg, sanngjörn eða afgerandi.
Búist er við því að May muni halda því fram að það sé ekki tímabært að halda þjóðaratkvæðagreiðslu fyrr en eftir að niðurstaðan af Brexit er ljós, því fyrst þá verði hægt að taka upplýsta ákvörðun.
Tvær skoðanakannanir birtust í dag um afstöðuna til sjálfstæðisins. YouGov könnun sem gerð var fyrir Times sýndi að 43% Skota myndu kjósa með sjálfstæði, sem er lægsta hlutfall sem mælst hefur í átján mánuði. Önnur könnun, sem var gerð af ScotCen, gaf til kynna að stuðningur við sjálfstæði væri 46 prósent.