Bill Gates, annar stofnenda Microsoft og nú auðugasti maður heims, hefur ákveðið, ásamt konu sinni Melindu, að ráðstafa öllum auði sínum í rannsóknar- og styrktarstarf, einkum á sviði heilbrigðis- og menntavísinda. Þau hafa þegar byggt upp risavaxna stofnun til að halda utan um þetta verkefni þeirra, en hún heitir Bill & Melinda Gates Foundation og er með höfuðstöðvar í Seattle, þar sem Bill og Melinda búa og starfa.
Forbes birti í dag nýjan lista yfir auðugasta fólk heims og er Bill Gates efstur á listanum með hreina eign upp á 86,6 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um tíu þúsund milljörðum íslenskra króna. Bill Gates hefur verið 18 sinnum í efsta sæti á lista Forbes af síðustu 23 árum.
Ekki lengur bara Microsoft
Stærstur hluti eigna Gates var lengi vel bundinn við eignarhluti hans í Microsoft, sem rekja má til stofnunar fyrirtækisins árið 1975. Hann er í dag tæknilegur ráðgjafi fyrirtækisins og stjórnarmeðlimur.
Að undanförnu hefur hann hins vegar selt töluvert af hlutum í fyrirtækinu og nemur eignarhlutur hans 2,3 prósentum í dag. Í ljósi stærðar fyrirtækisins er það stór eign fyrir fjárfesti og nemur hún um 11,2 milljörðum Bandaríkjadala.
Eignirnar eru í dag bundnar meðal annars í sjóðum sem fjárfesta í fasteignum og nýsköpunarfyrirtækjum. Þá hefur Gates fjárfest verulega í innviðum og fyrirtækjum sem koma að þeim, með einum eða öðrum hætti. Hann á stóran eignarhlut í Canadian National Railway, sem býr til og leggur lestarteina, og smíðar stoðgrindur fyrir ýmsar tegundir lesta. Þá á Gates einnig verðmæta eignarhluti í dráttarvélarframleiðandanum Deere & Co. og bílasölufyrirtækinu AutoNation.
Gott að eiga góða granna
Nýjast stóra fjárfesting hans er stofnun sjóðsins Breakthrough Energy Investmend Fund, en stofnframlag Gates í hann var einn milljarður Bandaríkjadala. Meðstofnendur hans eru margir af auðugustu mönnum heims, þar á meðal nágranni hans við Lake Washington, Jeff Bezos, stofnandi og forstjóri Amazon. Hann er nú þriðji ríkasti maður heims, með eignir upp á 73,5 milljarða Bandaríkjadala, sem að stærstum hluta eru bundnar í eignarhlutum í Amazon, en hann á ennþá tæplega 17 prósent hlut í félaginu.