Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, mun virkja 50. grein Lissabonsáttmálans þann 29. mars næstkomandi og með því hefja formlega útgönguferli ríkisins úr Evrópusambandinu. Þetta hefur talsmaður hennar nú staðfest.
Áður hefur verið greint frá því að hún myndi virkja ákvæðið formlega fyrir lok marsmánaðar. May mun senda bréf til forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Donald Tusk, þar sem þetta verður tilkynnt. Hún mun einnig flytja breska þinginu skýrslu um málið þennan dag, samkvæmt Guardian.
Þegar búið er að virkja 50. greinina geta samningaviðræður um útgöngu Bretlands formlega hafist, en virkjun greinarinnar er eina löglega leiðin fyrir ríki til þess að draga sig út úr sambandinu. Þegar greinin hefur verið virkjuð á að ljúka samningum um útgöngu innan tveggja ára, en flestir telja þó ólíklegt að það náist.
Hægt er að framlengja þennan samningstíma en það verður aðeins gert með samhljóma ákvörðun Evrópuráðsins. Hvert einasta aðildarríki hefur einnig neitunarvald þegar kemur að samkomulaginu um útgöngu, ekki eingöngu Bretland. Þjóðþing allra ríkjanna munu koma til með að kjósa um útgöngusamninginn þegar hann liggur fyrir.