Arion banki hefur óskað eftir því að fá upplýsingar um endanlega eigendur þeirra aðila sem keyptu 29,18 prósent hlut í bankanum um liðna helgi, og eiga umfram eitt prósent hlutafjár. Þegar upplýsingarnar berast munu þær verða birtar á heimasíðu Arion banka. Þetta hefur Kjarninn fengið staðfest hjá Arion banka.
Fjármálaeftirlitið sendi frá sér frétt í gær þar sem það vakti athygli á því að fjármálafyrirtækjum beri að tilgreina nöfn og hlutfallslegt eignarhald allra þeirra sem eiga umfram eitt prósent hlutafjár á heimasíðu sinni. „Sé lögaðili eigandi hlutafjár umfram eitt prósent skal jafnframt koma fram hvaða einstaklingur eða einstaklingar séu raunverulegir eigendur viðkomandi lögaðila.“
Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri eftirlitsins, sagði í tíufréttum RÚV í gær að Arion banki hefði fjóra daga til að uppfylla þessa skyldu. Því eiga upplýsingarnar að liggja fyrir í lok þessarar viku.
Arion banki óskaði eftir því við nýja eigendur sína, sem eru þrír vogunarsjóðir og Goldman Sachs, að fá upplýsingar til að uppfylla þessa lagaskyldu.
Ekki víst að endanlegir eigendur verði gefnir upp
Það er þó ekki víst að þessi umleitan muni skila neinum upplýsingum um þá einstaklinga sem voru að kaupa sér stóran hlut í íslenskum viðskiptabanka.
Taconic, Och-Ziff, Attestor og Goldman Sachs, sem keyptu samtals 29,18 prósent hlut í Arion banka af Kaupþingi á 48,8 milljarða króna, eiga að mestu hlutina í gegnum sjóði. Í hverjum sjóði eru margir hlutdeildarskirteinishafar og til að hægt sé að rekja eignarhaldið á hlutdeildarskírteini áfram þarf einstaklingur að eiga yfir tíu prósent í umræddum sjóði. Ef t.d. fjárfestingafélag á níu prósent af eignum umrædds sjóðs þá verður ekki hægt að rekja eignarhald þess til þeirra einstaklinga sem eiga fjárfestingafélagið.