Ítarleg skrifleg gögn sýna með óyggjandi hætti að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser, Kaupþing hf. á Íslandi, Kaupthing Bank Luxembourg og hópur manna sem vann fyrir og í þágu Ólafs Ólafssonar fjárfestis notuðu leynilega samninga til að fela raunverulegt eignarhald þess hlutar sem Hauck & Aufhäuser átti í Búnaðarbankanum í orði kveðnu. „Í raun var eigandi hlutarins aflandsfélagið Welling & Partners, skráð á Tortóla á Bresku Jómfrúaeyjum. Með fjölda leynilegra samninga og millifærslum á fjármunum, m.a. frá Kaupþingi hf. inn á bankareikning Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser var þýska bankanum tryggt skaðleysi af viðskiptunum með hluti í Búnaðarbankanum.“
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu um niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis sem rannsakað hefur aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupunum á 45,8 prósent hlut í Búnaðarbankanum í janúar 2003. Það er afdráttarlaus niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis að stjórnvöld hafi skipulega verið blekkt í aðdraganda og kjölfar sölunnar.
Skýrsla nefndarinnar var afhent klukkan 10 og klukkan 10:30 hefst blaðamannafundur þar sem Kjartan Bjarni Björgvinsson, héraðsdómarinn sem sat í rannsóknarnefndinni, mun fara yfir niðurstöður hennar.
Í fréttatilkynningunni segir enn fremur: „Síðari viðskipti á grundvelli ofangreindra leynisamninga gerðu það að verkum, að Welling & Partners fékk í sinn hlut rúmlega 100 milljónir Bandaríkjadala sem voru lagðar inn á reikning félagsins hjá Hauck & Aufhäuser. Snemma árs 2006, eða um þremur árum eftir viðskiptin með eignarhlut ríkisins í Búnaðarbankanum, voru 57,5 milljónir Bandaríkjadala greiddar af bankareikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Marine Choice Limited sem stofnað var af lögfræðistofunni Mossack Fonseca í Panama en skráð á Tortóla. Raunverulegur eigandi Marine Choice Limited var Ólafur Ólafsson. Um svipað leyti voru 46,5 milljónir Bandaríkjadala greiddar af bankareikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Dekhill Advisors Limited sem einnig var skráð á Tortóla. Ekki liggja fyrir óyggjandi upplýsingar um raunverulega eigendur Dekhill eða hverjir nutu hagsbóta af þeim fjármunum sem greiddir voru til félagsins.“
Í skýrslunni, sem verður gerð opinber á vef rannsóknarnefnda Alþingis síðar í dag, er meðal annars að finna tölvupóstsamskipti milli þeirra aðila sem skipulögðu blekkingunaa. Samkvæmt tilkynningunni sýna þau „hvernig íslensk stjórnvöld voru blekkt og hvernig rangri mynd af viðskiptunum var haldið að fjölmiðlum og almenningi. Á hinn bóginn bendir ekkert til annars en að öðrum aðilum innan fjárfestahópsins sem keypti hlut ríkisins í Búnaðarbankanum, S-hópsins svokallaða, hafi verið ókunnugt um leynisamningana og að þeir hafi staðið í þeirri trú að Hauck & Aufhäuser væri raunverulegur eigandi þess hlutar sem hann var skráður fyrir.“
Kjarninn mun fjalla ítarlega um skýrsluna þegar hún hefur verið birt.