Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis hefur boðað til fundar um málefni verksmiðju United Silicon í Helguvík á miðvikudagsmorgun. Fundurinn verður opinn fjölmiðlum og verður sendur út í beinni útsendingu á vef Alþingis.
Mikið hefur verið rætt um kísilver United Silicon undanfarnar vikur, og bæjarfulltrúar í Reykjanesbæ hafa meðal annars kallað eftir því að verksmiðjunni verði hreinlega lokað vegna mengunar. Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra hefur sagt að til greina komi að loka verksmiðjunni vegna mengunar, ef ekki takist að draga úr mengun og laga það sem er að.
Um miðjan síðasta mánuð hafnaði Umhverfisstofnun beiðni fyrirtækisins um sex mánaða frest til úrbóta á mengun sem berst frá verksmiðjunni og öðrum frávikum frá starfsleyfi þess. Því þarf að fara fram verkfræðileg úttekt á hönnun og rekstri verksmiðunnar, og á næstu vikum mun Umhverfisstofnun leita eftir tilboðum í slíka úttekt, en það verður gert á kostnað United Silicon. Þangað til niðurstaða liggur fyrir um þörfina á umbótum samkvæmt slíkri rannsókn má kísilverksmiðjan ekki starfa, nema reka einn ljósbogaofn.
Fyrirtækið hafði farið fram á að fá frestinn til að bæta úr frávikum og ganga frá úrbótum á mengunarvarnabúnaði og mengunarvörnum sem og orsök og upptök lyktarmengunar. Mikið hefur verið fjallað um mengun frá kísilverksmiðjunni í fjölmiðlum undanfarið.