Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur vikið Steve Bannon úr sæti sínu í þjóðaröryggisráði Bandaríkjanna. Bannon hefur verið í hlutverki helsta ráðgjafa Trumps síðan forsetinn tók við embætti í janúar. The New York Times greinir frá þessu.
Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu segir að ekki sé verið að lækka Bannon í tign, heldur sé verið að endurraða í þau fjölmörgu sæti sem ráðgjafar forsetans skipa.
Breytingarnar voru að frumkvæði þjóðaröryggisráðgjafa Donalds Trump, Herbert McMaster. McMaster tók við af Michael Flynn, sem sagði af sér í febrúar eftir að hafa orðið uppvís að því að afvegaleiða embættismenn um samskipti við rússneska sendiherrann.
Sagan af Flynn er enn öll ósögð.
Þegar Bannon var skipaður í þjóðaröryggisráðið í janúar vöknuðu spurningar um að Trump-stjórnin væri að blanda stjórnmálum um of í þjóðaröryggismálin, sem hafa hingað til verið samkunda yfirmanna í leyniþjónustu og lögreglu Bandaríkjanna. Ráðið er helsta upplýsingaveita forsetans í utanríkismálum og öryggismálum.
Bannon er umdeildur maður. Hann stýrði um tíma öfga hægrimiðlinum Breibart News í Bandaríkjunum og hefur lýst skoðunum sínum á útlendingum. Hann hefur fyrir vikið verið sakaður um útlendingahatur og þjóðernishyggju sem upphefur hvíta á kostnað annarra kynþátta.