Theresa May, forsætisráðherra Bretlands og formaður Íhaldsflokksins, lýsti því yfir í dag að hún hygðist ekki taka þátt í sjónvarpskappræðum í aðdraganda þingkosninganna sem hún hefur lagt til að yrðu boðaðar.
Þrátt fyrir að hafa ítrekað lýst því yfir að engar þingkosningar yrðu boðaðar í kjölfar Brexit-atkvæðagreiðslunnar fyrr en kjörtímabilið væri liðið árið 2020, þá óskaði May eftir því að breska þingið myndi greiða atkvæði með tillögu hennar um að boðað yrði til kosninga 8. júní næstkomandi.
Þingið greiðir atkvæði um tillöguna í dag og þurfa tveir þriðjuhlutar þingheims að samþykkja hana svo kosningarnar verði haldnar. Jeremy Corbyn, leiðtogi stjórnarandstöðunnar og Verkamannaflokksins, hefur sagst ætla að styðja þessa tillögu.
„Við ætlum ekki að halda neinar sjónvarpskappræður,“ sagði May í útvarpsviðtali í morgun. „Ég vil kosningabaráttu þar sem stjórnmálamennirnir ræða augliti til auglitis við kjósendur. Það er eitthvað sem ég hef alltaf trúað að sé best, og það er það sem ég trúi enn, og það er það sem ég ætla að gera í þessari kosningabaráttu.“
Í viðtalinu í morgunþættinum Today á BBC 4 var May einnig spurð um hvað hafi valdið því að hún skipti um skoðun á snemmbúnum kosningum. Hún hafnaði því að kosningarnar yrðu haldnar svo snemma til þess að gera málamiðlanir auðveldari í Brexit-viðræðunum, eins og hún hefur sjálf gefið óbeint í skyn.
Einu skýringarnar sem May hefur gefið fyrir því að kosningarnar séu haldnar svo snemma og með svo skömmum fyrirvara eru að þær gætu treyst umboð stjórnvalda til þess að leiða viðræðurnar í þá átt sem ákveðin hefur verið. Þær muni leiða af sér stöðugleika til lengri tíma.
Íhaldsflokkurinn undir stjórn Theresu May hefur undanfarið mælst stærstur á landsvísu í Bretlandi með nokkrum mun. Íhaldsmenn mælast með um 40-45 prósent stuðning miðað við um 25 prósent stuðning við Verkamannaflokkinn undir stjórn Jeremy Corbyn.
Séu leiðtogar þessara tveggja stærstu flokka bornir saman og spurt hver yrði betri forsætisráðherra hefur May haft afgerandi yfirburði gegn Corbyn.
Síðustu þingkosningar voru haldnar í Bretlandi árið 2015 þegar Íhaldsflokkurinn fékk 36,9 prósent atkvæða með David Cameron í forystu. Ed Milliband leiddi þá Verkamannaflokkinn sem hlaut 30,4 prósent.
May varast það segja ekki of mikið um Brexit-viðræðurnar sem geta nú hafist formlega eftir að hún sendi formlega beiðni um að Bretar fengju að ganga úr Evrópusambandinu í lok síðasta mánaðar. Hún hefur gengið svo langt að segja að á meðan kosningabaráttunni stendur muni hún ekki veita neinar nýjar upplýsingar um gang viðræðanna.
Vefmiðlar í Bretlandi hafa keppst við að benda á hlutverk fjölmiðla þegar kemur að kosningum; kosningar séu tækifæri fyrir almenning til þess að kynnast frambjóðendum og grannskoða þá kosti sem séu í boði svo hægt sé að taka upplýsta afstöðu í kjörklefanum. „Þess vegna hreinsa dagblöð og sjónvarpsstöðvar dagskrá sína og eyða svo miklum tíma í kosningar,“ skrifar Andrew Sparrow, stjórnmálafréttaritari The Guardian í pistli sínum á vefnum. „Kannski erum við bara að eyða tímanum okkar.“