Breska þingið kaus með tillögu Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, um að boðað verði til þingkosninga 8. júní næst komandi, eftir 50 daga. 522 kusu með tillögunni en 13 á móti.
Til þess að tillagan yrði samþykkt þurftu tveir þriðju hlutar þingheims að kjósa með tillögunni. Á þinginu sitja 650 þingmenn og þess vegna þurftu 434 þingmenn eða fleiri að samþykkja tillöguna.
Þingkosningar verða þess vegna haldnar í Bretlandi áður en skilnaðarviðræður Breta við Evrópusambandið hefjast formlega. Bresk stjórnvöld óskuðu formlega eftir því í lok mars að ganga úr Evrópusambandinu.
Þrátt fyrir að hafa ítrekað lýst því yfir að engar þingkosningar yrðu boðaðar í kjölfar Brexit-atkvæðagreiðslunnar fyrr en kjörtímabilið væri liðið árið 2020, þá óskaði May eftir því að breska þingið myndi greiða atkvæði með tillögu hennar um að boðað yrði til kosninga í sumar.
Einu skýringarnar sem May hefur gefið fyrir því að kosningarnar séu haldnar svo snemma og með svo skömmum fyrirvara eru að þær gætu treyst umboð stjórnvalda til þess að leiða viðræðurnar í þá átt sem ákveðin hefur verið. Þær muni leiða af sér stöðugleika til lengri tíma.
Samkvæmt skoðanakönnunum sem birtar hafa verið í dag virðast Bretar vera nokkuð sáttur við þessar snemmbúnu kosningar. Í könnun YouGov sem birt var í dag töldu 49 prósent aðspurðra að það hafi verið rétt af Theresu May að boða til kosninga snemma.
Að sama skapi telja flestir Bretar, samkvæmt könnunum, að eðlilegt hafi verið að boða til venjulegra þingkosninga heldur en að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu.