Viðskiptahraðallinn Startup Tourism lauk í síðustu viku þegar níu ný ferðaþjónustufyrirtæki og hugmyndir luku 10 vikna dagskrá í nýsköpun.
Þetta er í annað sinn sem Icelandic Startups efnir til viðskiptahraðalsins Startup Tourism sem miðar að því að klekja sprotafyrirtæki og nýsköpunarverkefni í ferðaiðnaðinum. Ferðaþjónusta á Íslandi er nú orðin stærsti iðnaður á Íslandi.
Fyrr á þessu ári voru tíu teymi valin til þátttöku í viðskiptahraðlinum í ár, úr hópi 94 umsækjenda. Í tilkynningu frá Icelandic Startups segir að umsóknafjöldinn hafi aukist um 30 prósent á milli ára.
Teymin níu sem útskrifuðust kynntu hugmyndir sínar í Tjarnarbíói fyrir fjárfestum og lykilaðilum innan ferðaþjónustugeirans á föstudaginn var. Eitt fyrirtækjanna hefur þegar hafið rekstur og gert er ráð fyrir að hin fyrirtækin geti hafið starfsemi á þessu ári.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, ávarpaði lokahófið í Tjarnarbíói auk þess sem að frumkvöðullinn Oliver Luckett hélt tölu um vörumerkið Ísland.
Alls eru níu fyrirtæki sem tekið hafa þátt í Startup Tourism viðskiptahraðlinum enn starfandi. Markmið viðskiptahraðalsins er að gefa sérvöldum sprotafyrirtækjum tækifæri til þess að láta hugmyndir sínar verða að veruleika, hvetja til nýsköpunar í ferðaþjónustu og stuðla að dreifingu ferðamanna allt landið um kring, allan ársins hring.. Til að ná þessu markmiði er teymunum sem fá þátttökurétt boðin fullbúin aðstaða til stofnunar fyrirtækis og aðgangur að sérfræðingum og leiðbeinendum.
Teymin sem tóku þátt í Startup Tourism í ár eru eftirfarandi.
Deaf Iceland
Deaf Iceland ætlar að bjóða döff ferðamönnum að upplifa Ísland á forsendum táknmálsins. Þau eru brautryðjendur hvað varðar slíka þjónustu í heiminum og búa yfir sterku tengslaneti. Þar að auki líta þau á fyrirtækið sem atvinnuskapandi vettvang fyrir heyrnarlausa á Íslandi.
Hælið, safn tilfinninganna
Saga berkla á Íslandi og þeirra sem þá upplifðu verður sögð á HÆLINU – setri um sögu berkla á Kristnesi í Eyjafirði. Á sýningunni verður lögð áhersla á sjónræna framsetningu og upplifun. Einnig verður kaffihús á staðnum. HÆLIÐ setur um sögu berklanna opnar vorið 2018 og verður kærkomin viðbót í menningarafþreyingu svæðisins.
IceYoga
IceYoga er ferðaþjónustufyrirtæki sem býður upp á jógaferðir um Ísland. Teymið á bak við IceYoga samanstendur af jógakennurum og leiðsögumanni sem öll eiga það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á ferðalögum og jóga.
MyShopover
MyShopover er vefsvæði sem mun einbeita sér að því að bjóða ferðamönnum hvaðan sem er úr heiminum að versla með heimamanni, eða verslunarráðgjafa. Þessi þjónusta byggir á svipaðri hugmyndafræði og Airbnb en í stað gistiþjónustu þá munum við bjóða uppá þjónustu þegar kemur að því að versla í ókunnugri borg.
Regnbogasafnið í Reykjavík
Regnbogasafnið í Reykjavík er upplifunarsafn á mærum listar og vísinda, þar sem litir, birta og persónuleg upplifun eru í lykilhlutverki. Safnið verður jafnlokkandi fyrir ferðamenn og fyrir þá sem búa á Íslandi, enda nóg pláss fyrir fjölskylduskemmtun í flórunni. Safnið er komið langt á veg og verður opnað í haust.
Sigló Ski Lodge
Siglo Ski Lodge verður í senn áfangastaður, miðstöð og upplýsingamiðlun fyrir náttúruunnendur. Með reynslu teymisins í bland við þekkingu heimamanna vilja þau nýta þá möguleika sem náttúruparadísin Tröllaskaginn hefur upp á að bjóða. Fyrirtækið mun bjóða upp á þjónustu og afþreyingu í útivist og leiðsögn allan ársins hring fyrir erlenda ferðamenn sem og Íslendinga.
Sólvangur Icelandic Horse Center
Sólvangur Icelandic Horse Center er fjölskyldurekinn hestabúgarður við Eyrarbakka á Suðurströnd Íslands. Þau bjóða gestum upp á að skyggnast inn í þeirra heim með reiðkennslu við allra hæfi og gistingu í smáhýsum. Einnig geta gestir komið við í Litla Hestabúðin sem verður í senn kaffihús og minjagripaverslun, þar sem allt snýst um hestinn.
The Cave People
Laugarvatnshellar eru staðsettir í miðjum gullna hringnum og markmiðið er að endurgera hellana í þeirri mynd sem þeir voru í þegar búið var í þeim. Boðið verður upp á ferðir með leiðsögn um hellana og saga ábúenda gerð ljóslifandi auk þess sem boðið verður upp á minjagripi og veitingar.
Travelscope
Ferðasjáin er leitarvél sem finnur draumaferðina út frá óskum og sérþörfum sem byggjast á alhliða gögnum um áfangastaði. Með aðgang að raunsönnum upplýsingum hefur notandinn fullkomna yfirsýn yfir þá áfangastaði sem henta honum fullkomlega. Hafðu heiminn í höndum þér!