Norski milljarðamæringurinn Kjell Inge Røkke ætlar að gefa megnið af eignum sínum en eignir hans eru metnar á 17,2 milljarða norskra króna, eða sem nemur um 212 milljörðum króna miðað við núverandi gengi (norsk króna = 12,3 ISK).
Í viðtali Aftenposten í gær upplýsti hann að hann hygðist styrkja náttúruverndarsjóðinn World Wildlife Fund, meðal annars með því að fjárfesta í nýju skipi sem sjóðurinn ætlar að nota til rannsókna. „Ég ætla að gefa til samfélagsins bróðurpartinn af því sem ég hef þénað. Þetta skip er hluti af því,“ segir Røkke í viðtali við Aftenposten.
Skipið á að vera tilbúið til notkunar sumarið 2020 eða eftir ríflega þrjú ár.
Røkke hefur nú þegar sett á laggirnar menntasjóð sem ber nafnið Aker Scholarship en sjóðurinn fjármagnar meistara- og doktorsnám þeirra sem hljóta styrk hjá sjóðnum, við marga af virtustu háskólum heimsins, þar á meðal Oxford, Harvard, MIT, Caltech, Háskólann í Pennsylvaníu, Cambridge og Ríkisháskólann í Singapúr.
Í fyrra fékk 21 nemandi styrk úr sjóðnum en Røkke ætlar að láta 40 til 50 nemendur fá styrk árlega frá og með næsta ári.
Røkke á eignir í hinum ýmsu atvinnugeirum, en fjárfestingar hans eru að miklu leyti í Noregi. Meðal annars í sjávarútvegi og olíuiðnaði.