Meðalævilengd íslenskra kvenna hefur aukist um rúm fjögur ár síðan 1986 og geta þær vænst þess að lifa í rúm 83 ár. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar. Meðalævilengd íslenskra karla hefur aukist meira á sama tíma eða um rúm sex ár. Þótt að meðalævilengd karla hafi lengst lifa þeir þó að meðaltali styttra en konurnar en geta þó átt vona á því að verða rúmlega 80 ára.
Samkvæmt meðaltali síðustu tíu ára var meðalævilengd íslenskra karlmanna 80,4 sem er hæsti meðal aldur þess tíma í Evrópu. Næst á eftir eru svissneskir karlmenn sem lifa að meðaltali í 80,2 ár. Þeir lifa þó ekki eins lengi og konurnar en spænskar og franskar konur verða kvenna elstar 85,3 ára.
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir sviðstjóri yfir áhrifaþáttum heilbrigðis hjá Embætti landlæknis segir að þessa þróun megi meðal annar rekja til framfara læknavísindanna. „Við höfum náð góðum tökum á þeim smitsjúkdómum sem að fyrri kynslóðir dóu úr. Við deyjum því frekar úr ósmitbærum sjúkdómum sem að herja á okkur seinna á ævinni. Samt erum við líka að ná betri tökum á þeim þannig að, hver kynslóð lifir lengur en sú sem kom á undan.“
Í þessu samhengi má benda á að árið 1846 létust 3.293 einstaklingar á Íslandi. Það ár geisaði mislingafaraldur á Íslandi og fækkaði þeim um 370 á milli ára og voru 57.718 ári seinna. Flest dauðsföll það árið voru í júní en þá létust 741 einstaklingur sem var fjórfalt fleiri dauðsföll en búast hefði mátt við.
Dauðsföll árið 2016 voru færri í heildina en árið 1846 þrátt fyrir að Íslendingar væru árið 2016, samkvæmt tölum hagstofunnar, 335.439 talsins. Helsta dánarorsök það árið voru sjúkdómar tengdir blóðrásarkerfi og hjarta svo sem kransæðastíflur, hjartaáföll eða æðaþrengingar.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar var fjöldi þeirra sem létust yfir 90 ára á Íslandi í fyrra 473 talsins og 20 prósent þeirra sem létust það ár. Hundrað árum áður 1916 var hlutfall þeirra sem létust yfir 90 ára 1,28 prósent þeirra sem létust eða 17 samtals.
Heilsuvitund hjálpar mikið til
Dóra segir það ekki aðeins læknavísindunum að þakka að við lifum lengur. „Ef við myndum bara bíða eftir því að læknavísindin lækni sjúkdómana þá væri það ekki nóg.“ Hún segir að ekki dugi að einstaklingar leiti sér bara læknisaðstoðar þegar þeim er farið að líða illa, það sé ekki síður mikilvægt að gera það sem hægt er til að efla heilsuna og fyrirbyggja vandamálin. „Ef við ætlum að ná enn betri árangri þá þarf að huga að þáttum eins og hreyfingu, næringu, áfengi, tóbaki og streitu“.
Dóra segir að heilsuvitund Íslendinga hafi batnað á undanförnum árum. „Við erum orðin meðvitaðri og gerum kröfur t.d. með mat í skólum, við viljum að hann sé hollur og setjum kröfur um það. Við vitum að við þurfum að hreyfa okkur og við gerum meira af því.“ Hún bendir á að það hafi orðið aukning í þátttöku í átökum á borð við Hjólað í vinnuna og að Íslendingar gangi eða hjóli meira til og frá vinnu en áður.
„Á milli 2007 og 2012 var tvöföldun á því sem við köllum virkan ferðamáta að hjóla eða ganga í vinnuna á Höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt rannsóknum þá lifa þeir lengur sem hreyfa sig daglega eins og t.d. að hjóla eða ganga í vinnuna og ekki bara að þeir lifi lengur heldur við betri lífsgæði. Við viljum nefnilega ekki bara bæta árum við lífið heldur einnig lífi við árin, Ekki bara tóra heldur búa við lífsgæði meðan við lifum.“ Segir Dóra
Ekki bara á ábyrgð einstaklinga
Dóra leggur áherslu á að það sé mikilvægt að stjórnvöld leggi ekki bara ábyrgð á heilsu í hendur einstaklinga heldur að þau taki virkan þátt í að skapa umhverfi sem hvetji einstaklinga til heilsusamlegra lífernis. „Við [hjá embætti landlæknis] leggjum áherslu á að stjórnvöld sýni ábyrgð og geri holla valið auðvelt og geri þannig öllum kleift að bæta heilsu sína og hlúa að henni. Að það sé ekki bara fyrir einhverja forréttindahópa að lifa heilsusamlegu lífi. Við erum að vinna að þessu með sveitarfélögum í landinu undir yfirskriftinni Heilsueflandi samfélag- vellíðan fyrir alla“.
Það sem stjórnvöld geta gert er til dæmis að tryggja aðgengi að þeim þáttum sem hafa áhrif á heilsu. „Það er ekki nóg að maður viti hvaða matur er hollur heldur þarf að vera gott aðgengi að honum, hann þarf að vera á viðráðanlegu verði og í boði í skólum og vinnustöðum. Svo þurfa að vera til göngu- og hjólastígar svo við getum hjólað og gengið í öruggu umhverfi. Það er því mikilvægt að huga að þeim þáttum í samfélaginu sem styðja við holla valið og heilbrigðar lífsvenjur.
Embætti landlæknis hefur þróað og komið á laggirnar vefnum heilsuhegdun.is.. „Við viljum vinna með heilsugæslunni að því að hjálpa fólki að gera líf sitt heilsusamlegra og bæta heilsuhegðun sína og myndum gjarnan vilja sjá heilsueflandi móttökur um allt land. Við byrjuðum á þessu með vefnum reyklaus.is sem var vefur til að hjálpa fólki að hætta að reykja en við erum búin að útvíkka þetta fyrir fleiri þætti sem hafa áhrif á heilsu ekki bara tóbakið. Það hefur náðst góður árangur í að draga úr reykingum og við viljum nýta þessa reynslu og fara sömu leiðir varðandi aðra áhrifaþætti til að bæta líf fólks.“
Lægsti ungbarnadauði í Evrópu
Ungbarnadauði er hvergi lægri í Evrópu en á Íslandi eða 0,7 af hverju eitt þúsund lifandi fæddra barna. Dóra segir eina aðalástæðuna fyrir lágri tíðni ungbarnadauða vera gæði mæðra- og ungbarnaverndar á Íslandi og að hún standi öllum til boða óháð efnahag.
„Við erum með mjög góða þjónustu fyrir verðandi mæður og mjög góða ungbarnavernd, við fylgjumst mjög vel með fyrir fæðingu og eftir fæðingu það er alveg til fyrirmyndar hér á íslandi og við mættum gjarnan nota þá nálgun í heilsuvernd út lífið með heilsu eflandi móttökum þá myndum við ná enn betri árangri“
Ungbarnadauði er tíðastur í Tyrklandi þar sem hann er 13,8 af hverju eitt þúsund lifandi fæddra. Árið 2016 var hlutfall þeirra sem létust á íslandi undir 4 ára aldri 0,3 prósent. Hundrað árum áður var hlutfallið hins vegar 22 prósent.