Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hefur lagt fram tillögu sína að dómurum við Landsrétt, sem á að taka til starfa í byrjun næsta árs. Sigríður leggur til við Alþingi að sjö konur og átta karlar taki sæti sem dómarar. Málið fer til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.
„Sú veiting embætta sem liggur fyrir fyrir dómsmálaráðherra er án fordæma. Er augljóslega einstakt að skipa þurfi fimmtán dómara í senn við stofnun nýs dómstóls. Umsækjendur hafa fjölbreyttan bakgrunn. Að mati dómsmálaráðherra er það jákvætt og gefur tilefni til þess að huga sérstaklega að yfirbragði hins nýja dómstóls með tilliti til þeirrar þekkingar og reynslu sem þar verður,“ segir í bréfi Sigríðar til Unnar Brár Konráðsdóttur, forseta Alþingis.
Tillaga Sigríðar er töluvert frábrugðin þeirri tillögu sem dómnefnd lagði fram fyrir ráðherrann fyrr í þessum mánuði. Fjórir einstaklingar, sem nefndin lagði til að yrðu dómarar, komast ekki á lista Sigríðar. Það eru þeir Ástráður Haraldsson, Eiríkur Jónsson, Jóhannes Rúnar Jóhannsson og Jón Höskuldsson. Í þeirra stað koma Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Jón Finnbjörnsson og Ragnheiður Bragadóttir.
Kjarninn greindi frá þeirri tillögu, eins og lesa má hér. Dómnefndin lagði til fimmtán nöfn, sem fara hér á eftir.
- Aðalsteinn E. Jónasson hæstaréttarlögmaður
- Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður
- Davíð Þór Björgvinsson prófessor við lagadeild Háskóla Íslands
- Eiríkur Jónsson prófessor við lagadeild Háskóla Íslands
- Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari
- Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari
- Jóhannes Rúnar Jóhannsson hæstaréttarlögmaður
- Jóhannes Sigurðsson hæstaréttarlögmaður
- Jón Höskuldsson héraðsdómari
- Kristbjörg Stephensen borgarlögmaður
- Oddný Mjöll Arnardóttir prófessor við lagadeild Háskóla Íslands
- Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari
- Sigurður Tómas Magnússon atvinnulífsprófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík
- Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður
- Þorgeir Ingi Njálsson, dómstjóri við Héraðsdóm Reykjaness.
Dómnefndin tilgreindi samtals tólf þætti sem hún lagði til grundvallar niðurstöðu sinni. Reynsla af dómarastörfum er þar lögð að jöfnu við reynslu af lögmannsstörfum og störfum í stjórnsýslunni. Samanlögð reynsla af fræðistörfum og kennslu ásamt menntun þá vegur það jafn þurngt og hinir þrír fyrrgreindu þættir. Matsþættir er lúta að stjórn þinghalda, samningu og ritun dóma og almennrar starfshæfni eru hins vega látnir liggja milli hluta, þar sem ekki er gert upp á milli umsækjenda hvað þá þætti varðar. Reynsla dómara fái því ekki það vægi sem tilefni er til.
Nefndin taldi ekki rétt að bregða út frá venjunni við vægi ákveðinna þátta, og taldi að þeir fimmtán sem hún valdi hafi verið hæfastir. Munur hafi verið á hæfni þess sem var í fimmtánda sæti og þess sem á eftir kom.
Ráðherra segir í bréfi sínu að mat á hæfni umsækjenda sé alltaf vandasamt. „Eina ófrávíkjanlega krafan sem hlýtur að vera gerð er að til embættisins veljist hæfir einstaklingar og að þeir búi yfir kostum sem renni raunverulegum stoðum undir hið mikilvæga starf sem fram innan réttarins í samstarfi við aðra sem þar starfa.“ Matið verði aldrei vélrænt.
Eftir að hafa farið yfir öll gögn málsins er það niðurstaða Sigríðar að fleiri umsækjendur hafi komið til greina, alls 24 umsækjendur.
- Aðalsteinn E. Jónasson, hæstaréttarlögmaður
- Arnfríður Einarsdóttir, héraðsdómari
- Ásmundur Helgason, héraðsdómari
- Davíð Þór Björgvinsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands
- Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari
- Ingveldur Einarsdóttir, settur hæstaréttardómari
- Jóhannes Sigurðsson, hæstaréttarlögmaður
- Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari
- Kristbjörg Stephensen, borgarlögmaður
- Oddný Mjöll Arnardóttir, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands
- Ragnheiður Bragadóttir, héraðsdómari
- Ragnheiður Harðardóttir, héraðsdómari
- Sigurður Tómas Magnússon, atvinnulífsprófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík
- Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, hæstaréttarlögmaður
- Þorgeir Ingi Njálsson, dómstjóri við Héraðsdóm Reykjaness