Samkvæmt nýútgefinni skýrslu BSRB eru réttindi íslenskra barna til dagvistunar við lok fæðingarorlofs skert miðað við á öðrum Norðurlandaþjóðum. Er það mat BSRB að núverandi skipan dagvistunarmála standi í veg fyrir jöfnum möguleikum kynjanna til þátttöku á vinnumarkaði þar sem ábyrgð á umönnun barna lendi að mestu leyti á mæðrum.
Ekki er kveðið á um í íslenskum lögum við hvaða aldur börn eigi rétt á dagvistun eftir lok fæðingarorlofs. Þessu er öfugt farið á hinum Norðurlöndunum, en þar standa opinber dagvistunarúrræði til boða stax að loknu orlofi.
Á Íslandi eru leikskólar eina dagvistunarúrræðið á vegum hins opinbera fram að sex ára aldri, en ekki er kveðið á um við hvaða aldur börn eigi rétt á inntöku í leikskóla. Því er sveitafélögunum í sjálfsvald sett að ákveða þann aldur sem stuðningur við foreldra hefst. Í flestum sveitarfélögum er inntökualdur barna í leikskóla 12 mánuðir en vegna skorts á leikskólaplássi eru íslensk börn að meðaltali 20 mánaða gömul við inntökum, 11 mánuðum eftir að fæðingarorlofi þeirra lýkur.
Umönnun barna milli loka fæðingarorlofs og inntöku í leikskóla hefur að mestu leyti verið í höndum ættingja og dagforeldra sem sveitarfélögum ber engin skylda til þess að niðurgreiða. Líkt og með leikskólapláss er að meðaltali 3-6 mánaða bið eftir dagvistun þar sem algengt er að dagforeldrar anni ekki eftirspurn.
Af skýrslunni má lesa að bilið milli loka fæðingarorlofs og dagvistunar, sem kallað er umönnunarbil, auki ójafna stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði. Þar sem umönnunarbilið er að mestu leyti brúað af mæðrum eykst munur milli foreldra á fjarveru frá vinnu. Að bilinu meðtöldu má gera ráð fyrir því að mæður séu fjórum sinnum lengur frá vinnu vegna barnseigna en feður. Í ljósi þessa leggur BSRB áherslu á að breyta núverandi fyrirkomulagi „til að uppræta kynjamisrétti”.