Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, segir það ekkert óeðlilegt að útflutningsfyrirtæki nýti sér þær lagaheimildir sem séu til staðar til þess að liðka fyrir útflutning. Útflutningsskylda komi á hinn bóginn ekki til greina að hennar hálfu.
Þetta segir ráðherrann í samtali við Kjarnann þegar hún var aðspurð um afstöðu sína gagnvart umsókn Markaðsráðs kindakjöts um undanþágu hjá Samkeppniseftirlitinu. Þorgerður bendir á að offramboð sé á kindakjöti á Íslandi og sjái Samkeppniseftirlitið ekkert að umsókninni sé samstarf Markaðsráðs við sláturleyfishafa lítið annað en jákvætt.
Ráðherrann birti fyrr á þessu ári drög að frumvarpi með það markmið að endurskoða samkeppnisstöðu Mjólkursamsölunnar, en frumvarpið fól meðal annars í sér endurskoðun á innflutningskvóta á mjólkurvörum.
Í samtali við Kjarnann segir ráðherra einnig að afstaða hennar gagnvart útflutningskyldu sé vel þekkt, en hún er andsnúin henni þar sem hún sé ekki endilega til hagsbóta fyrir neytendur. Þess vegna hefði hún engar athugasemdir við þessa undanþágu að því gefnu að Samkeppniseftirlitið samþykki hana.