Markaðsráð kindakjöts hefur óskað eftir undanþágu frá Samkeppniseftirlitinu vegna útflutnings á kindakjöti. Vill markaðsráðið efna til samstarfs sláturleyfishafa um útflutning og markaðssetningu á erlendum mörkuðum.
Undanþágan gerir Markaðsráði kindakjöts kleift að efta til samstarfs sláturleyfishafa um útflutningi og markaðssetningu á erlendum mörkuðum. Samkvæmt markaðsráðinu er markmiðið að vinna með hagkvæmari hætti að eflingu útflutnings og markaðssetningar kindakjöts á erlendum mörkuðum.
„Við erum að framleiða hágæða vörur við einstakar aðstæður. Við teljum að þessi sérstaða geti skapað mikil tækifæri til markaðssetningar kindakjöts á erlendum mörkum sé rétt staðið að málum” segir Oddný Steina Valsdóttir, formaður Markaðsráðs kindakjöts.
í samtali við Kjarnann segir Oddný Steina undanþáguna vera mikilvæga fyrir útflutninginn, sérstaklega í ljósi erfiðra aðstæðna vegna núverandi gengis krónunnar.
“Sauðfjárbændur hafa þurft að taka á sig afurðarverðslækkanir á undanförnum árum. Með öflugra útflutningsstarfi er markmiðið að breyta þeirri þróun og auka stöðugleika í útflutningi.“
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir í samtali við Kjarnann að samkvæmt lögum sé möguleiki á að veita slíkar undanþágur. Hins vegar þurfi að vera hægt að sýna fram á að aðgerðirnar hafi jákvæð áhrif, ekki einungis á viðskiptaaðila heldur líka neytendur.
Ósk Markaðsráðs til Samkeppniseftirlitsins felur í sér undanþágu fyrir næstu tvö árin, eða til 1. September 2019.