Jóhannes Rúnar Jóhannsson, hæstaréttarlögmaður, hefur ákveðið að stefna ríkinu vegna skipunar dómsmálaráðherra á dómurum við Landsrétt. Fetar hann í fótspor Ástráðs Haraldssonar, en Kjarninn birti stefnu hans 12. júní. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Jóhannes sendi frá sér fyrr í dag.
Jóhannes Rúnar sótti um embætti dómara við Landsrétt og var meðal 15 hæfustu umsækjenda samkvæmt matsnefnd dómsmálaráðherra, en þrátt fyrir það hafi ráðherrann ákveðið að ganga fram hjá umsókn hans.
Í fréttatilkynningunni segir Jóhannes: „Það er valdníðsla þegar stjórnvald misnotar opinbert vald með þeim hætti að ólögmæt og ómálefnanleg sjónarmið, svo sem vinátta, flokkshagsmunir eða óvild, ráða ákvörðun þess”.
Jóhannes bendir á að ákvörðun dómsmálaráðherra eigi að byggja á málefnalegum sjónarmiðum, en hann telur rökstuðning ráðherrans ekki standast neina efnislega skoðun. Hún sé almenns eðlis, ógagnsæ og óljós.
Undir lok fréttatilkynningarinnar segir Jóhannes: “Ég hef því tekið ákvörðun um að höfða dómsmál á hendur íslenska ríkinu til að fá það staðfest að ranglega hafi verið staðið að málum og hálfu dómsmálaráðherra og Alþingis við skipun í embætti dómara við Landsrétt."
Fréttatilkynninguna í heild sinni má lesa hér.