Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mun ekki hefja rannsókn á verklagi við vinnslu tillögu til Alþingis um skipan dómara í Landsrétt. Þetta kemur fram á vef mbl.is.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, segir að burt séð frá því hvað muni koma út úr dómsmálum varðandi skipan dómara við Landsrétt kunni að vera tilefni til að rannsaka verklagið við vinnslu tillögunnar til Alþingis.
Hins vegar hafi nefndin ákveðið það að fara ekki af stað með rannsókn í málinu vegna mögulegrar hættu á að spilla fyrir dómsmálum þeirra fjögurra aðila sem kunni að leita réttar síns. Þetta hafi verið gert í kjölfar mats umboðsmanns Alþingis og aðallögfræðing Alþingis, en þeir voru kallaðir fyrir nefndina fyrr í dag. Nú þegar hafa tveir þessara fjögurra aðila, Jóhannes Rúnar og Ástráður Haraldsson, stefnt ríkinu vegna vinnubragða dómsmálaráðherra.
„Aftur á móti getur verið, ef að þessir fjórir aðilar lýsa yfir því að þeir setji sig ekki á móti því að rannsókn fari fram samhliða, að þá munum við kalla eftir því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd komi aftur saman og meti stöðuna í því ljósi”, segir Jón Þór í viðtali við mbl.is.
Ekki hafi verið búið að afskrifa tillöguna, hún sé ennþá á borðinu. Að lokum bendir Jón Þór á að það sé lykilatriði að rannsóknin trufli ekki fyrir réttindum borgaranna að sækja rétt sinn.