Theresa May, forsætisráðherra og leiðtogi minnihlutastjórnar Íhaldsflokksins í Bretlandi, hefur þurft að fórna stórum kosningamálum í stefnuskrá nýrrar ríkisstjórnar sinnar. Elísabet II Englandsdrottning flutti stefnuræðu minnihlutastjórnarinnar í breska þinginu í Westminster í dag.
May leiðir minnihlutastjórn Íhaldsflokksins sem mynduð var í kjölfar þingkosninga í Bretlandi fyrir tæpum tveimur vikum síðan. Minnihlutinn mun halda velli í krafti samkomulags milli íhaldsmanna og Lýðræðislega sambandsflokksins í Norður-Írlandi, sem mun verja minnihlutann og kjósa með mikilvægum málum. Í staðinn fá stefnumál norðurírska flokksins aukið vægi í þinginu.
Átta flókin Brexit-frumvörp
Í stefnuræðunni segir af áætlun ríkisstjórnarinnar í Brexit-málum að samtals átta frumvörp verði lögð fram til þess að afnema Evrópureglur og innleiða breskar reglur í staðinn.
Frumvörpin munu meðal annars innihalda lög sem gera breskum stjórnvöldum kleift að skilgreina eigin innflytjendastefnu, leggja eigin tolla og áætla viðskiptakjör og -samninga, óháð evrópsku regluverki sem samþykkt er í Brussel.
Stefnuræðan fjallar hins vegar ekki um frekari útfærslu á nýrri innflytjendalöggjöf eða viðskiptasamningum.
Brexit-málin munu eflaust verða hitamál þingsins, enda snúast þau í grunninn um að Evrópulöggjöfin sem innleidd var árið 1972 verði afskrifuð og ný bresk lög samþykkt í staðinn. Þarna skapast ofboðsleg tækifæri fyrir stjórn Theresu May að hafa áhrif á breskt samfélag, en um leið verður það flókið verkefni að lenda málum þannig að þingheimur geti rætt málin án of mikilla tafa.
Forsætisráðherrann May vonast til þess að geta afgreitt stefnumál sín á næstu tveimur árum. Verkefni hennar varð mun flóknara í kjölfar kosninganna í byrjun mánaðarins þegar flokkur hennar tapaði þingmeirihluta. Í kjölfarið hefur hún þurft að verjast innanflokksandúð og þurft að leggja meira á sig til að sannfæra flokksmenn um ágæti sitt.
Meðal þeirra innanríkismála sem ný ríkisstjórn May hyggist ætla að leggja fram eru miklar breytingar á tækninámi í Bretlandi og stofnun nýrrar nefndar gegn öfgahyggju.
Fyrir utan stofnun nýrrar nefndar er ekki rætt frekar um aðgerðir gegn hryðjuverkum í stefnuræðunni. Þess í stað fjallar ræðan um endurskoðun hryðjuverkalaga í kjölfar nýlegra árása á breska borgara.
May lagði mikla áherslu á endurbætur á menntakerfinu í kosningabaráttunni en í stefnuræðunni er hvergi gengið jafn langt og May hefur lofað.
Fær Trump ekki að koma í heimsókn?
Að venju taldi drottningin upp þær opinberu heimsóknir sem eru á döfinni hjá breskum stjórnvöldum. Á þeim lista var nafn Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, ekki. Drottningin sagðist samt ætla að taka á móti öðrum þjóðhöfðingjum sem hafa fengið heimboð til Bretlands, eins og konungshjónin frá Spáni sem koma í júlí.
Þegar May var í opinberri heimsókn í Washington bauð hún Trump í opinbera heimsókn til Bretlands, eins og forsætisráðherrum og forsetum Bretlands og Bandaríkjanna er tamt að gera.
Undanfarið hefur Donald Trump haft sífellt meira að segja um bresk málefni og hefur forsetinn skipt sér opinberlega af breskum innanríkismálum. Það hefur farið fyrir brjóstið á breskum stjórnmálamönnum og almenningi sem hefa hvatt May til þess að draga heimboðið til baka.
Trump hefur sjálfur sagst ekki vilja koma til Bretlands ef viðbúið sé að fjöldamótmæli verði skipulögð gegn honum.
Það er hins vegar óljóst hver staða heimsóknarinnar er. Breskir fjölmiðar virðast hins vegar túlka orð drottningarinnar sem staðfestingu á því að heimsókninni hafi verið frestað um óákveðinn tíma.
Áhugasamir um formfestu og breskt lýðræði hafa eflaust gaman af því að fylgjast með athöfninni frá upphafi til enda. Kjarninn fjallaði um hefðirnar á dögunum þar sem finna má lýsingu á helstu atriðum athafnarinnar.