Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði skattsvikurum „stríð á hendur“ á blaðamannafundi á Arnarhváli fyrr í dag. Voru þar einnig kynntar tillögur tveggja starfshópa með þau markmið að lágmarka skattsvik og milliverðlagningu.
Benedikt skipaði fyrr í ár tvo starfshópa, annan um umfang milliverðlagningar og faktúrufölsunar en hinn um umfang skattsvika og skattaundanskota. Á fundinum voru tillögur beggja starfshópanna kynntar, en þær stuðluðu allar að því að lágmarka skattsvik á Íslandi. Fjölsetið var á fundinum, en þar voru meðal annarra tollstjóri, ríkisskattsstjóri og skattrannsóknarstjóri.
Benedikt sagði mikla meðvitund vera um skattaundanskot í þjóðfélaginu: „Það er víða verið að skera upp herör geggn skattsvikum. ASÍ og SA kynntu aðgerðir sínar gegn kennitöluflakki, við höfum líka verið að kíkja í það. Einnig höfum við líka verið í samstarfi við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð, iðnaðar-og nýsköpunarráðherra, í þeim efnum.“
Samfélagslegt tap hér á landi var metið á bilinu 1-6 milljarða íslenskra króna á hverju ári. Tillögur hópanna voru fjölmargar, en þær fólu meðal annars í sér aukið eftirlit með óeðlilegri milliverðlagningu og beita sektum ef þess þarf. Einnig var lagt til að 10.000 króna seðillinn verði tekinn úr umferð strax og 5.000 króna seðillinn einnig í náinni framtíð. Til þess að vega á móti minnkun seðla í umferð var einnig lagt til að hver einstaklingur hafi innlánsreikning í Seðlabanka sem væri ígildi reiðufjár.
Þorkell Sigurlaugsson, framkvæmdarstjóri nefndarinnar um umfang skattsvika og skattaundanskota, lagði áherslu á hversu skaðleg skattsvik eru og mikilvægi þess að beita forvirkum aðgerðum: „ Það verður að byrgja í brunninn áður en barnið er dottið í hann. Skattsvik er fíkn, og þeir sem stunda þetta halda áfram á að gera það. “Einnig benti hann á að þessar tillögur væru lagðar fram með því markmiði að þeim yrði beitt. „Þetta má ekki verða einhver skúffuskýrsla.”