Meðalfjöldi auglýstra íbúða á vef mbl.is hefur aukist nokkuð á síðustu mánuðum eftir að hafa minnkað nær stöðugt í þrjú ár. Samhliða því hefur meðaltími íbúðarhúsnæðis á sölu lengst lítillega í apríl og maí síðastliðnum.
Í nýbirtum hagvísum Seðlabanka Íslands er mánaðarlegt meðaltal auglýsinga á fasteignavef mbl.is tekið saman. Samkvæmt þeim tölum hefur fjöldi fasteigna á sölu lækkað nær jafnt og þétt í takti við aukna spennu á húsnæðismarkaði auk þess sem meðalsölutími íbúðarhúsnæðis hefur lækkað verulega frá 2010.
Svo virðist vera sem einhver árstíðabundin sveifla sé í fasteignaauglýsingum þar sem þeim fjölgar oft á vormánuðum. Hins vegar er umrædd fjölgun nokkuð meiri en hefur verið síðustu ár, sem gæti bent til breytinga á aðstæðum á fasteignamarkaði.
Sömu þróun má ekki greina á atvinnuhúsnæði, en fjöldi auglýstra atvinnufasteigna hefur minnkað umtalsvert undanfarin misseri og virðist ekki þróast í takt við íbúðarhúsnæði.
Kjarninn fjallaði nýlega um raunverð fasteigna, en það hafi náð sögulegum hæðum í apríl síðastliðnum samkvæmt hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. Í lok hagsjárinnar var því velt fyrir sér hversu lengi kaupendur sætti sig við þá þróun sem er í gangi, en nýleg aukning fasteignaauglýsinga gæti einmitt bent til breyttra aðstæðna á fasteignamarkaði.