Kröfum Ástráðs Haraldssonar og Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar vegna skipunar á Landsréttardómara hefur verið vísað frá Héraðsdómi. Þetta kemur fram á vefsvæði Héraðsdóms.
Ástráður og Jóhannes Rúnar sóttust báðir eftir embætti dómara við Landsrétt og voru meðal 15 hæfustu umsækjenda að mati dómnefndar. Hins vegar voru þeir ekki skipaðir af dómsmálaráðherra, en hún valdi frekar aðra umsækjendur sem dómnefndin taldi ekki vera meðal þeirra 15 hæfustu.
Kjarninn greindi frá stefnu Ástráðs og Jóhannesar í síðasta mánuði, en báðir fóru fram á að skipan dómsmálaráðherra verði ógild og réttur þeirra til skaðabóta yrði viðurkenndur. Einnig fóru þeir fram á eina milljón á mann í miskabætur.
Ríkið fór fram á frávísun ógildingakröfunnar og viðurkenningakröfunnar, en Héraðsdómur úrskurðaði að gera það. Miskabótakröfunni var hins vegar ekki vísað frá, en tekin verður ákvörðun um hana seinna.
Úrskurð Héraðsdóms vegna máls Ástráðs og Jóhannesar má lesa hér.