Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK) sendi frá sér fréttatilkynningu í dag þar sem þeir telja að reglur hafi verið brotnar við ákvörðun um vilyrði fyrir úthlutun á 60 milljóna króna styrk frá Kvikmyndasjóði.
Í tilkynningunni segir að að heimild til styrkveitingar sé meðal annars bundinn því skilyrði að fullbúið handrit liggi fyrir og sé í reglugerð um Kvikmyndasjóð nr. 229/2003, en engar undantekningar séu að finna frá því skilyrði. Því hafi vilyrði fyrir styrk verið veitt í andstöðu við „skýrt og afdráttarlaust ákvæði reglugerðarinnar“.
Vísir greindi frá því 6. júlí að sjónvarpsþáttaröðin Ófærð 2 hafi fengið vilyrði fyrir 60 milljóna króna styrk frá Kvikmyndasjóði, þrátt fyrir að handrit að þáttunum hafi verið óklárað.
Snorri Þórisson, eigandi Pegasus, sagði svo úthlutunina vera óréttláta í viðtali á heimasíðu Vísis fyrr í dag. Laufey Guðjónsdóttir, forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar taldi engar reglur hafa verið brotnar. Þótt handritið hafi ekki verið tilbúið lægju allir dramatískir punktar fyrir og því taldi hún Kvikmyndamiðstöðin hafa nægileg gögn í höndunum.