Um fimmtungur þeirra sem fá snjalltæki frá vinnuveitenda sínum telja að það hafi mikil áhrif á líf sitt utan vinnutíma, samkvæmt nýrri könnun sem framkvæmd var fyrir BHM. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu bandalagsins sem gefin var út í dag.
Könnunin, sem framkvæmd var af Maskínu milli 5. Maí og 28. Júní náði til 2.232 manna handahófsúrtaks úr 27 aðildarfélögum bandalagsins. Um 28% svarenda sögðust hafa snjallsíma til umráða frá vinnuveitenda sínum, 7% spjaldtölvu og 0,5% snjallúr.
Í könnuninni kom einnig fram að 40% svarenda svaraði skilaboðum utan hefðbundins vinnutíma með snjalltæki oftar en fjórum sinnum í viku, og þar af 20% daglega.
Meirihluti svarenda sem hafa snjalltæki frá vinnuveitenda kvaðst oft eða mjög oft fá einhvers konar skilaboð vegna vinnunnar í tækið utan hefðbundins vinnutíma.
Um fimmtungur þeirra svarenda sem hafa snjalltæki frá vinnuveitenda sögðu að tækið hefði frekar mikil eða mjög mikil áhrif á hvíldartíma sinn eða samskipti við fjölskyldu og vini. Um fjórðungur svarenda töldu snjalltækin hafa í meðallagi mikil áhrif en rúmlega helmingur sagði það hafa frekar lítil eða mjög lítil áhrif.
„Sú mynd sem birtist okkur í þessari könnun veldur nokkrum áhyggjum. Hún staðfestir það sem við töldum okkur vita. Skil milli vinnu og einkalífs hafa orðið ógreinilegri en þau voru áður með tilkomu snjalltækja. Í stað þess að veita nauðsynlegan sveigjanleika geta snjalltækin valdið því að fólk sé í vinnunni allan sólarhringinn,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM í fréttatilkynningu.