Þetta er það sem koma skal, segir Kína sem flaug herflugvélum nærri lofthelgi Japans við heræfingar í gær.
Varnarmálaráðuneyti Japans lýsti því í gær hvernig það leit á flug kínverska hersins sem „óeðlilegt“. Þar er einnig undirstrikað að herflugvélarnar, allar af gerð Xian H-6, hafi ekki brotið lofthelgi Japana.
Kínverski sjó- og flugherinn hefur verið við stífar æfingar á vestanverðu Kyrrahafi undanfarna mánuði. Herinn skerpir nú á getu sinni til þess að standa í stórræðum langt frá ströndum Kína.
Frá þessu er greint á vef fréttastofu Reuters.
„Það land sem er hér til umræðu ætti ekki að gera of mikið úr neinu eða oftúlka, þetta verður allt í lagi um leið og þau verða orðin vön þessu,“ sagði í yfirlýsingu kínverska varnarmálaráðuneytisins.
Kínverjar segja tilburði hersins löglega og til siðs. Þeir muni halda áfram að skipuleggja æfingar sínar eftir því sem krafist er hverju sinni.
Æfingarnar nærri lofthelgi Japans fóru fram á Miyako-sundi milli japönsku eyjanna Miyako og Okinawa, norðaustan af Taívan. Þjóðarvarnarráðuneyti Taívan segist hafa fylgst náið með æfingunum, sem komu einnig nærri loftvarnarsvæðis eyjarinnar.
Kínverjar hafa staðið í hernaðarlegum stórræðum undan ströndum Kína á undanförnum misserum. Í Suður-Kínahafi hefur Kína til dæmis byggt eyjar á skerjum í þeim tilgangi að tryggja sér yfirráð yfir þessu umdeilda hafsvæði.
Þá hafa Kínverjar lengi staðið með Norður-Kóreu í alþjóðasamfélaginu. Gífurleg ógn stafar nú af Norður-Kóreu vegna kjarnorkuafls þeirra. Japan er eitt þeirra ríkja sem hefur lengi verið innan seilingar Kim-fjölskyldunnar.