Breytilegir vextir á íbúðalánum Lífeyrissjóðs verslunarmanna eru nú 2,98%, en líklegt er að þeir hafi aldrei verið svona lágir. Vextirnir eru 0,67 prósentustigum lægri en almennir vextir til verðtryggðra útlána samkvæmt Seðlabankanum.
Umræddir vextir Lífeyrissjóðs verslunarmanna eru þeir lægstu sem bjóðast á verðtryggðum íbúðarlánum á Íslandi þessa stundina, en til samanburðar býður LSR upp á 3,11% vexti og Gildi upp á 3,35% vexti. Vextir á íbúðalánum bankanna eru nokkru hærri, eða um 3,65% fyrir svipað lánshlutfall.
Hafa ber í huga að leyfilegt lánshlutfall á íbúð er breytilegt eftir lánastofnunum. Til að mynda er það 75% hjá LSR, en um 65% hjá Gildi. Hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna er lánshlutfallið 70%, en hjá bönkunum er hæsta leyfilega lánshlutfallið 85%.
Í öllum tilvikum eru vextirnir á ársgrundvelli og fyrir 40 ára húsnæðislán.
Íbúðalánavextir LiVe eru ákvarðaðir þannig að þeir eru 0,75 prósentustigum hærri en meðalávöxtun síðasta mánaðar í ákveðnum flokki íbúðabréfa sem skráður er í Kauphöll. Á síðustu mánuðum hafi þeir lækkað umtalsvert, en gera má ráð fyrir því að stýrivaxtalækkun Seðlabankans hafi haft einhvern þátt í því.
Frá því vaxtalög voru sett árið 2001 hefur Seðlabankinn birt viðmiðunarvexti fyrir húsnæðislán skv. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, en þau eiga við ef vaxtaviðmiðun er ekki tiltekin . Seðlabankinn á að ákveða vextina á ársgrundvelli með hliðsjón af lægstu vöxtum á verðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum.
Eins og sést á þróun viðmiðunarvaxta undanfarin 16 ár á mynd hér að ofan líta þeir út fyrir að vera í sögulegu lágmarki þessa stundina. Hins vegar er óljóst hvort Seðlabankinn ákveði viðmiðunarvexti sína með hliðsjón af útlánum lífeyrissjóðanna, sem eru 0,67 prósentustigum lægri.