Tvær ferðaskrifstofur sem skipuleggja ferðir til Norður-Kóreu segja bandarísk stjórnvöld ætla að banna bandarískum ríkisborgum að ferðast til Norður-Kóreu.
Nýverið lést bandarískur námsmaður, Otto Warmbier, eftir að hafa dvalið í norðurkóresku fangelsi í rúmt ár. Warmbier hafði verið látinn laus í júní síðastliðnum en var þá í dái sem hann vaknaði aldrei aftur úr.
Frá þessu er greint á vef fréttastofunnar Reuters.
Ferðaskrifstofan Koryo Tours segir að bann Bandaríkjanna verði kynnt 27. júlí og muni taka gildi 30 dögum síðar. Það var sænska sendiráðið í Pjongjang, höfuðborg Norður-Kóreu, sem kynnti ferðaskrifstofunni bannið en Svíar sjá um öll mál Bandaríkjanna í Norður-Kóreu.
„Eftir þennan 30 daga frest munu vegabréf bandarískra ríkisborgara sem ferðast til norðursins verða ógilt af stjórnvöldum,“ segir í tilkynningu hinnar ferðaskrifstofunnar sem skipuleggur Norður-Kóreuferðir, Young Pioneer. Sú ferðaskrifstofa skipulagði ferðina sem Otto Warmier var í þegar hann var fangelsaður í desember 2015.
Ekki hafa fengist svör frá bandarískum stjórnvöldum um bannið.
Nýverið ferðaðist Íslendingurinn Sindri Antonsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, til Norður-Kóreu. Hann lýsti reynslu sinni í viðtali á vef Umhverfisstofnunar.