Elon Musk, stofnandi SpaceX og Tesla Motors, sagðist hafa fengið „munnlegt samþykki“ frá ríkisstjórn Bandaríkjanna til þess að byggja hraðlestargöng milli New York og Washington D.C. Þetta kom fram á vef Bloomberg í gær.
Atburðarrás verkefnisins er, eins og mörg önnur verkefni hans, með ólíkindum. Snemma morguns í desember í fyrra skrifaði Musk Twitter-færslu um að hann væri orðinn brjálaður á umferðinni í Bandaríkjunum og hefði í hyggju að búa til risabor. Þótt færslan virtist ekki hafa verið skrifuð af mikilli alvöru virtist Musk ætla að framfylgja áætlun sinni og stuttu seinna stofnaði hann borfyrirtækið sitt, The Boring Company.
Verkefnið virðist ganga ágætlega, en í maí gaf The Boring Company út kynningarmyndband fyrir verkefnið, sem sjá má fyrir ofan fréttina. Samkvæmt því mun heilt umferðarnet verða byggt neðanjarðar þar sem segulsleðar ferja bíla milli staða á 200 kílómetra hraða. Sama mánuð hóf fyrirtækið svo að bora tilraunagöng í Kaliforníu, en fyrsti leggur verkefnisins kláraðist svo 28. Júní.
Víða um Bandaríkin vill Musk hins vegar bora sérstök göng fyrir hraðlest, sem hann kallar Hyperloop. Hugmyndin um Hyperloop kom fyrst fram í skýrslu sem Elon birti árið 2013, en samkvæmt henni myndi lestin svífa áfram á segulmagni og yrði keyrð í lofttæmdum göngum. Í fyrra lét hann svo byggja Hyperloop-braut nálægt SpaceX höfuðstöðvum sínum í Kaliforníu til þess að prófa áfram mismunandi útfærslur af lestinni.
Í apríl setti Musk fram ellefu tillögur að Hyperloop-göngum víðs vegar um landið, en meðal þeirra er 29 mínútna ferð milli New York og Washington og 15 mínútna ferð milli Seattle og Portland. Á miðvikudaginn í síðustu viku fór svo fram fyrsti reynsluakstur Hyperloop-lestarinnar, en sjá má myndband af honum hér að ofan. Prufan tók rétt yfir fimm sekúndur, en á þeim tíma náði segullestin 112 kílómetra hraða .
Í fyrradag birti Musk svo Twitter-færslu þar sem hann sagðist hafa fengið munnlegt samþykki frá ríkisstjórn Bandaríkjanna um að bora göng fyrir Hyperloop lestina sína milli New York og Washington D.C. Samkvæmt færslunni mun lestin fara 354 kílómetra leið milli borganna tveggja á innan við hálftíma.
Fréttaveitur hafa lýst yfir efasemdum á það hvort munnlega samþykkið sé mikilvægur áfangi. Það feli ekki í sér neinar skuldbindingar að hálfu ríkisins og borfyrirtæki Musk virðist ekki vera í stakk búið til þess að fara í stórtækar aðgerðir á næstunni. Fréttamaður BBC svaraði Twitter-færslu Musk: „Munnlegt? Hljómar of snemmt til að tilkynna.. nema að þú sért að safna stuðningi fyrir verkefnið?“ Við því svaraði Musk: „Allur stuðningur væri vel þeginn!“