AGS hefur dregið úr hagvaxtarvæntingum sínum fyrir Bretland og Bandaríkin, en sömuleiðis gerir sjóðurinn ráð fyrir auknu vægi evrusvæðisins. Í kjölfar breytinganna hefur Guardian vísað til Bretlands sem „veika manninn í Evrópu.“
Hagvaxtarvæntingar AGS birtust í skýrslu sjóðsins, sem er uppfærð ársfjórðungslega, um horfur í efnahagsmálum um allan heim. Í skýrslunni er gert ráð fyrir að hagvöxtur muni aukast um 3,5% á alþjóðavísu í ár og um 3,6% á næsta ári. Sjóðurinn býst því við nokkurri uppsveiflu á næstu misserum, en metinn alþjóðahagvöxtur í fyrra var 3,2%. Þrátt fyrir ágætar efnahagshorfur eru hagvaxtartölurnar enn lægri en þær voru fyrir fjármálahrunið 2008.
Helstu breytingar í skýrslunni síðan í apríl eru þær að sjóðurinn hefur dregið úr væntingum fyrir Bretland og Bandaríkin. Í Bretlandi hefur neysla verið undir væntingum, aðallega vegna hækkandi verðbólgu undanfarinna mánaða. Í Bandaríkjunum, hins vegar, hefur seðlabankinn gefið til kynna að vaxtahækkun sé á næsta leiti, en vænta má þess að hækkunin muni hægja eitthvað á hagvextinum.
Samhliða versnandi horfum í Bandaríkjunum og Bretlandi má gæta aukinnar bjartsýni á evrusvæðinu. Búist er við miklum hagvexti í Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu og á Spáni þar sem vöxtur á fyrsta ársfjórðungi hefur verið ofar væntingum. Í því tilliti nefnir sjóðurinn að pólitísk áhætta hjá Evrópusambandinu hafi minnkað á árinu, en Evrópusinnaðir stjórnmálaflokkar hafa unnið í kosningum í þremur stórum Evrópulöndum það sem af er árs. Þróunin er einnig skýr ef litið er á gjaldmiðla landanna, þar sem evran hefur styrkst mikið gegn pundinu og Bandaríkjadal á síðustu mánuðum.
Á vef Guardian í dag lýstu tveir fyrrverandi starfsmenn peningastefnunefndar seðlabanka Englands yfir áhyggjum af þróuninni. Hagvöxtur í Bretlandi væri sá minnsti af öllum evruríkjunum, verðbólga sé komin aftur á kreik og kaupmáttur launa hafi staðnað. Samkvæmt þeim hefur útganga Bretlands úr Evrópusambandinu leitt til þess að landið sé að verða að „veika manninum í Evrópu.“