Frumkvöðlarnir Mark Zuckerberg og Elon Musk eru ósammála um hættuna sem stafar af gervigreind í framtíðinni. Norska fréttasíðan NRK kallar málið „heimsins nördalegasta rifrildi.“
Í frétt NRK er greint frá áhyggjur Musk af aukinni gervigreind, en í síðustu viku sagði hann að meðhöndlun á þeim miklu tækniframförum sem gervigreindin myndi leysa úr læðingi fæli í sér „mestu áhættu sem við stæðum frammi fyrir,“ á ráðstefnu í Rhode Island.
Í því samhengi hvatti hann stjórnmálamenn til þess að setja upp betri og nákvæmari lög varðandi gervigreind. „Eins og staða mála er núna þá hefur ríkisvaldið ekki einu sinni innsýn í stöðu mála[...] Um leið og fólk áttar sig þá verður það hrætt, eins og það ætti að vera,“ sagði Musk í ræðu sinni.
Ekki virðast allir sammála Musk í þeim efnum, en Mark Zuckerberg gerði athugasemdir við aðvaranir hans og og kallaði þær „býsna óábyrgar“ á Facebook-síðu sinni í gær. Stuttu seinna hafði Musk samband við hann til að ræða ágreining þeirra, en í kjölfar samtalsins skrifaði hann eftirfarandi Twitter-færslu þar sem vitneskja Zuckerberg var dregin í efa:
Óvíst er hvort færslan muni lægja öldurnar milli frumkvöðlanna, en þeir virðast á öndverðum meiði þegar kemur að framtíðarspár um gervigreindartækni. Samkvæmt NRK hræðist Musk uppreisn vélmenna gegn mannkyninu í náinni framtíð, ekki ósvipað og í kvikmyndinni Terminator.
Á hinn bóginn telur Zuckerberg gervigreindartækni eiga eftir að bjarga lífum í framtíðinni, meðal annars með útrýmingu umferðarslysa.