Mikill munur er á hjúskaparstöðu breskra karlmanna eftir fjárhag, en samkvæmt nýrri skýrslu enskra samtaka eru miðaldra breskir karlmenn úr fátækari fjölskyldum tvöfalt líklegri til að vera einstæðingar en þeir sem koma úr ríkari fjölskyldum. The Guardian greinir fyrst frá.
Samtökin, sem heita Institute for Fiscal Studies (IFS), byggðu skýrslu sína á tveimur opinberum hóprannsóknum (Cohort studies) þar sem 17 þúsund einstaklingum sem fæddust í sömu viku, annars vegar árið 1958 og hins vegar árið 1970, var fylgt eftir.
Niðurstöður skýrslunnar sýndu að bil sé á milli hjúskaparmöguleika karlmanna eftir uppeldisaðstæðum, en bilið hafi einnig farið breikkandi á síðustu árum. Samkvæmt henni var einn af hverjum þremur 42 ára karlmönnum úr fátækum fjölskyldum einstæðingur, samanborið við einn af hverjum sjö karlmönnum úr ríkum fjölskyldum.
Samkvæmt IFS er umrætt bil ekki einungis afleiðing þess að menn úr fátækum fjölskyldum finni sér sjaldnar maka, heldur sé skilnaðartíðni þeirra einnig tvöfalt hærri en hjá mönnum úr ríkum fjölskyldum.
Ójöfnuður milli kynslóða
Önnur niðurstaða IFS var sú að tekjuójöfnuður karlmanna milli kynslóða hafi farið aukandi, en synir ríkra foreldra eru mun líklegri til að vera ríkir sjálfir nú en fyrir nokkrum árum. Á árinu 2012 hafi tekjur vinnandi 42 ára manna með foreldra í efsta tekjufimmtungnum verið að meðaltali 88% hærri en þeirra sem áttu fátækari foreldra. Tekjubilið er nokkuð stærra en árið 2000, en þá höfðu karlmenn með ríka foreldra að jafnaði 47% hærri tekjur.