Tilboð knattspyrnuliðsins Everton í íslenska landsliðsmanninn Gylfa Sigurðsson hefur verið samþykkt. Tilboðið er talið vera um 45 milljónir punda, tæplega sjö milljarðar króna. Ef af verður mun Gylfi verða dýrasti leikmaður í sögu Everton. Hann verður raunar á meðal 30 dýrustu knattspyrnumanna sögunnar. Frá þessu er greint á vef Sky Sports.
Búist er við því að Gylfi fari í læknisskoðun á morgun og verði í kjölfarið kynntur sem leikmaður Everton.
Kaupverðið er talið vera um 45 milljónir punda, tæplega sjö milljarðar króna. Ef af verður mun Gylfi verða dýrasti leikmaður í sögu Everton. Hann verður raunar á meðal 30 dýrustu knattspyrnumanna sögunnar.
Everton hefur verið áhugasamt um að kaupa Gylfa, sem er lykilleikmaður í íslenska landsliðinu og hefur leikið þorra síns ferils í Englandi, um langt skeið. Félagið spurðist fyrir um hann í janúar síðastliðnum og gerði tilboð í landsliðsmanninn fyrr í sumar, sem var hafnað. Gylfi lýsti hins vegar yfir áhuga á því að fara til Everton og fór ekki með Swansea í æfingarferð til Bandaríkjanna í síðasta mánuði þar sem hann var ekki í réttu hugarástandi til þess. Gylfi hefur æft með aðalliði Swansea frá því að það snéri aftur til baka en ekki tekið þátt í æfingarleikjum liðsins. Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Everton, sagði á blaðamannafundi fyrir helgi að það væri stutt í að það næðist saman um kaup á Gylfa.
Liðið hefur keypt fjölda leikmanna í sumar. Þar ber helst að nefna Wayne Rooney, sem ólst upp hjá Everton en fór til Manchester United fyrir 13 árum síðan og er markahæsti leikmaður þess félags frá upphafi. Rooney er einnig markahæsti leikmaður enska landsliðsins frá upphafi. Hann markaði endurkomu sína um liðna helgi með því að skora sigurmark Everton gegn Stoke í fyrstu umferð ensku úrvaldsdeildarinnar.
Aðrir sem komið hafa til Everton í sumar eru Davy Klaassen, Jordan Pickford, Michael Keane, Sandro Ramirez og Cuco Martina. Þá keypti félagið framherjann Henry Onyekuru og lánaði hann strax til belgíska liðsins Anderlecht. Á móti hefur félagið selt nokkra leikmenn, og munar þar mest um Romelu Lukaku sem knattspyrnustjóri Everton segir að geti endað með að kosta 95 milljónir punda. Félagið segist raunar hafa einungis eytt sjö milljónum punda nettó enn sem komið er, þrátt fyrir að hafa keypt leikmenn fyrir meira en 100 milljónir punda.
Snemma árs 2016 keypti Farhad Moshiri 49,9 prósent hlut í Everton auk þess sem hann á kauprétt á meiru hlutafé. Frá þeim tíma hefur félagið gengið í gegnum miklar breytingar og er m.a. í þeim fasa að reisa sér nýjan heimavöll við Bramley Moore höfnina í Liverpool-borg. Gangi áformin að óskum mun liðið hefja leik á vellinum haustið 2020. Knattspyrnustjóri Everton er hollenska goðsögnin Ronald Koeman og yfirmaður knattspyrnumála er Steve Walsh, sem var áður hjá Leicester þegar liðinu tókst að vinna ensku deildina í fyrra. Báðir voru ráðnir til starfa eftir að Moshiri keypti sig inn í félagið.