Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur útilokað þá möguleika sem fela í sér frekari diplómatískar viðræður gagnvart aukinni ógn frá Norður-Kóreu. Í gær sagði Trump alla kosti koma til álita í málefnum Norður-Kóreu en lýsti nýrri skoðun sinni á Twitter í dag.
„Bandaríkin hafa verið að ræða við Norður-Kóreu og fjárkúgað stjórnvöld þar í 25 ár. Frekara samtal er ekki svarið!“ skrifaði forsetinn í færslu á Twitter.
Trump hefur heitið því að leyfa norðurkóreskum stjórnvöldum ekki að komast upp með þróun vopna sem drífa á meginland Norður-Ameríku. Í gær gerði Norður-Kórea svo tilraun með meðaldrægar eldflaugar sem flugu yfir japanskar eyjar og lenti í Kyrrahafinu handan Japan, með þeim afleiðingum að almannavarnarbjöllur gullu í japönskum borgum.
Sameinuðu þjóðirnar hafa fordæmt þessa „svívirðilegu“ tilraunir Norður-Kóreu og farið fram á að ríkið hætti öllum vopnaþróunaráætlunum sínum. Þó var ekki ráðist í frekari viðskiptaþvinganir.
Skrif forsetans á Twitter eru í andstöðu við það sem utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra hans hafa sagt, en þar segjast ráðamenn róa öllum árum að diplómatískri lausn á norðurkóreska vandamálinu. Fyrr í þessum mánuði sagði Jim Mattis varnarmálaráðherra að tilraunir Bandaríkjanna væru „af diplómatískum toga. Þær væru reknar af diplómötum. Þær eru að framkalla diplómatískar lausnir.“
Þingmenn í Bandaríkjaþingi hafa gagnrýnt forsetann fyrir óheflaða framkomu á Twitter-reikningi sínum og sagt Trump verða að gæta orða sinna. „Þetta er hugsanlega það allra hættulegasta, ábyrgðarlausasta tvít forsetadóms hans. Milljónir mannslífa eru að veði – þetta er enginn leikur,“ skrifaði Öldungadeildarþingmaðurinn Chris Murphy á Twitter.