Félag forstöðumanna ríkisstofnana hefur óskað eftir lögfræðilegri úttekt á ákvörðun umhverfis- og auðlindaráðherra um að auglýsa öll störf forstöðumanna stofnanna sem heyra undir ráðuneytið laus til umsóknar.
Forstöðumannafélagið veltir fyrir sér hvort þessi ákvörðun ráðherra standist jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu í dag.
Kjarninn greindi frá því á miðvikudag að Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefði ákveðið að auglýsa stöðu forstjóra Umhverfisstofnunar lausa til umsóknar. Kristín Linda Árnadóttir hefur gengt stöðu forstjóra síðan árið 2008 og því fer öðru ráðningartímabili hennar að ljúka. Kristín þarf að sækja um stöðuna á ný vilji hún gegna starfinu áfram.
Aðrir forstöðumenn stofnanna sem heyra undir ráðuneyti Bjartar munu þurfa að sækja aftur um að loknum skipunartíma sínum, ef þeir vilja gegna starfinu áfram.
Í tilkynningunni frá Félagi forstöðumanna ríkisstofnana segir að framangreind ákvörðun sé „úr takti við vinnu sem nú stendur yfir í fjármála- og efnahagsráðuneytinu vegna breytinga Alþingis á lögum um kjararáð. Þær umbætur snúa að því að færa forstöðumenn ríkisstofnana undan kjararáði varðandi starfskjör og koma á nýju verklagi varðandi til dæmis launakjör og starfslok.“ Niðurstöður vinnu við umræddar umbætur muni liggja fyrir á næstu mánuðum, segir í tilkynningunni.
Æviráðningar í stjórnsýslunni voru afnumdar með nýjum lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna sem tók gildi um mitt ár 1996. Í 23. grein laganna segir að embættismenn séu skipaðir í fimm ár í senn. Sá vani hefur þó verið á að ráða sitjandi forstjóra ríkisstofnana áfram án þess að störf þeirra séu auglýst vilji þeir gegn starfinu lengur.
Samkvæmt heimildum Kjarnans er vilji til að breyta þessu verklagi hjá hluta ríkisstjórnarinnar og Björt hefur nú stigið fyrsta skrefið í þeim málum. Viðmælendur Kjarnans segja að til standi að auglýsa fleiri stöður þegar skipanatími rennur út.
„Félagið vonast til þess að umhverfis- og auðlindaráðherra muni aðlaga ákvörðun sína að hinu nýja verklagi, þegar það liggur fyrir, enda verði með því gætt meðalhófs og jafnræðis á meðal fólks í sambærilegum störfum hjá hinu opinbera,“ segir í tilkynningunni frá Félagi forstöðumanna ríkisstofnana.