Hægt verður að leika íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu í nýjustu útgáfu FIFA-tölvuleikjanna. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt lið er til boða í þessum vinsælasta íþróttatölvuleik í heimi.
Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) greindi frá þessu í fréttatilkynningu í dag. Þar segir að samningar hafi náðst milli EA SPORTS, framleiðanda leikjanna, og KSÍ. Nýjasta útgáfa leiksins, FIFA 18, kemur í verslanir 29. september næstkomandi.
„Ég er mjög ánægður með þessa niðurstöðu,“ er haft eftir Guðna Bergssyni, formanni KSÍ, í fréttatilkynningunni. Hann segist telja þetta vera góð tíðindi fyrir alla þá sem spila leikinn hér á landi „og í raun um allan heim“. „Mér finnst þetta jákvætt markaðslega fyrir íslenskan fótbolta, gaman fyrir okkar stuðningsmenn og einnig leikmennina sjálfa.“
Mikil óánægja braust út meðal fótboltaunnenda og tölvuleikjaspilara í kjölfar Evrópumeistaramótsins í fyrra þegar fréttir bárust af því að KSÍ hafi hafnað tilboði frá EA SPORTS um að landsliðið yrði í boði í FIFA 17. Þá var Geir Þorsteinsson formaður KSÍ en hann sagði upphæðina sem boðin var fyrir notkunnréttinda og sérleyfa íslenska landsliðsins of lág.
„Þetta var mjög lág upphæð frá fyrirtæki sem græðir á tá og fingri er mér sagt. Við komum með gagntilboð en það var ekki áhugi fyrir því,“ sagði Geir í samtali við Vísi í fyrra.