Kaffiplöntur eru þekktar fyrir að vera sérstaklega vandlátar þegar kemur að hitabreytingum og ræktarlandi. Það veldur því að vinsælustu tegundir kaffis í heiminum eru ræktaðar í vissri hæð yfir sjávarmáli í hitabeltislöndunum.
Af þessari einu ástæðu gætu loftslagsbreytingar haft töluverð áhrif á það hvernig kaffi við munum neyta í framtíðinni. Og ekki aðeins hvernig kaffi, heldur einnig hvort við munum neyta kaffis yfir höfuð því vinsælustu tegundirnar vilja auðvitað sína eigin frjóbera sem lifa illa við breyttar aðstæður.
Fjallað er um kaffi og loftslagsbreytingar á vefnum Ars Technica.com.
Tvær tegundir kaffis hafa verið ræktaðar til magnneyslu. Önnur er sú sem kölluð er „robusta“. Sú er harðgerari og stenst hitabreytingar og smit betur en hin svo hægt er að rækta hana víða. Vandinn við robusta er að afurðin þykir ekki sérlega góð á bragðið, auk þess að koffínmagnið er svo mikið að það er mun líklegra til að valda hjartsláttartruflunum.
„Arabica“ er hins vegar sú tegund kaffis sem flestir þekkja af flóknu bragði. Arabica er hins vegar mjög vandlát um ræktunarskilyrði. Við miðbaug vex arabica aðeins í meira en 1.000 metra hæð yfir sjávarmáli og við sérstök úrkomuskilyrði. Nær pólunum vex arabica í um 500 til 1.000 metra hæð.
Vísindamenn hafa þó búið til blendinga af arabica- og robusta-ættum en það getur tekið um það bil fjögur ár fyrir kaffibaunir að vaxa á slíkum plöntum, svo það er langtímaverkefni að hefja slíka ræktun.
SVo það er augljóst fyrir svo viðkvæma ræktun að loftslagsbreytingar munu hafa áhrif á kaffiframleiðslu. Á flestum þeim svæðum sem kaffi er ræktað munu loftslagsbreytingar ýta ræktuninni hærra yfir sjávarmál. Þeim mun ofar sem farið er því minna landsvæði er hægt að yrkja.
Hnattrænar greiningar á þessari stöðu hafa leitt í ljós að ræktun arabica-kaffis gæti minnkað um helming um miðja þessa öld. Þá hefur verið tekið með í reikninginn að hægt verður að rækta meira fjær miðbaugi.