Áhættumatið, sem núverandi lög um innflutning gæludýra til Íslands eru byggð á, var unnið út frá röngum forsendum og telst þar af leiðandi óviðunandi. Þetta kemur fram í skýrslu um stöðu innflutningsmála gæludýra á Íslandi sem unnin var undir formerkjum Félags ábyrgra hundaeigenda og kom út í september.
Samkvæmt skýrslunni hefur ekki verið tekið til skoðunar fyrirkomulag líkt og tíðkast í nágrannalöndum Íslands til að annast eftirfylgni innflutnings dýra, svo sem gæludýrapassakerfi.
Píratar hyggjast taka upp málið eftir kosningar en í síðustu viku sendi Ásta Guðrún Helgadóttir inn fyrirspurn vegna málsins til landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra þar sem hún spurði meðal annars hvort ekki þætti tímabært að endurskoða innflutningslögin.
Varnir gegn smitsjúkdómum virka í öðrum löndum
Skýrslan var unnin af Þorgerði Ösp Arnþórsdóttur, meðlimi Félags ábyrgra hundaeigenda, og Guðfinnu Kristinsdóttur, stjórnarmeðlimi. Að sögn Þorgerðar Aspar var hún skrifuð sem samantekt staðreynda og rökstuðnings fyrir endurskoðun laganna, aðallega svo þeir Alþingismenn, sem ætla sér að taka málið upp, geti sett sig inn í það. Hún segir skýrsluna jafnframt vera tól til að opna umræðuna um málefni gæludýra, deila fræðslu og skapa vettvang fyrir samræður.
Ennfremur kemur fram í skýrslunni að kröfur um bólusetningar, blóðsýnagreiningar og sníkjudýrameðhöndlanir einar og sér, hafi reynst vel í öðrum löndum sem varnir gegn smitsjúkdómum við flutning gæludýra milli landa. Einangrun gæludýra við komu til landsins sé óþörf tímaskekkja þegar litið er til framfara í tækni og dýralækningavísindum, sem og frá dýravelferðar- og mannréttindasjónarmiðum.
Þörf á nýju áhættumati
Starfshópur á vegum Hundaræktarfélags Íslands hefur fjallað um málefnið í nálega þrjú ár og fundaði nýlega með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að nýtt áhættumat þyrfti að framkvæma sem fyrst. Þorgerður Ösp telur að mikill þrýstingur sé í þjóðfélaginu vegna þessa máls um þessar mundir, sérstaklega vegna langra biðlista sem eru eftir plássi í Einangrunarstöðinni.
Þorgerður segir að mikill hræðsluáróður ríki um málið í þjóðfélaginu og margir séu illa upplýstir. „Margir halda að ef ekki væri fyrir einangrun myndum við sjá stórfelldar sjúkdómafaraldur, sem gæti ekki verið fjær raunveruleikanum. Öll þau forskilyrði sem dýrið þarf að uppfylla áður en komið er til landsins eru meira en nægileg vörn. Einangrunin gegnir engu gagni í þessu samhengi,“ bendir hún á.
Hún segir að Matvælastofnun skýli sig á bakvið það að iðraormar hafi fundist í saursýnum hjá hundum í einangrun. „Iðraormurinn sem MAST skýlir sér á bakvið, Strongyloides stercoralis, finnst nú þegar á Íslandi. Svo fyrir utan það að helstu hýslar ormsins eru mannfólk, ekki hundar,“ segir hún. Þorgerður telur að inn í þetta mál vanti gagnsæi og fagleg vinnubrögð. Þess vegna mæli Hundaræktarfélag Íslands og Félag ábyrgra hundaeigenda sterklega með að erlendur fagaðili vinni nýja áhættumatið.
Aðrir kostir ekki metnir
Að mati skýrsluhöfunda var sem fyrr segir áhættumatið, sem núverandi lög og reglugerðir eru byggð á, unnið út frá röngum forsendum. Ekki var metin áhætta á sjúkdómasmiti nema út frá tveimur möguleikum. Í fyrsta lagi að viðhalda núverandi varnaraðgerðum sem eru bólusetningar, sníkjudýrameðhöndlanir, blóðsýnagreiningar til staðfestingar mótefnis, sem og fjögurra vikna einangrun. Í öðru lagi hafi áhættan á smiti verið metin út frá því ef engar varnaraðgerðir væru viðhafðar.
„Ekki voru skoðaðir neinir möguleikar milli þessara tveggja, en ljóst er að mikið grátt svæði er þar í milli. Aldrei hefur verið unnið áhættumat sem metur til dæmis áhættuna á smitum ef tekið yrði upp sambærilegt fyrirkomulag og Evrópski gæludýrapassinn eða einangrun stytt,“ segir Þorgerður Ösp. Hún bætir við að núverandi áhættumat verði því að teljast óviðunandi og niðurstöðum þess augljóslega stýrt við vinnslu, þar sem einn af þeim tveimur möguleikum skoðaðir, að viðhafa engar varnaraðgerðir, kom í raun aldrei til greina og sé fráleitur.
Hættan á smiti 1 á hverjum 40.000 árum
Þorgerður Ösp segir að lönd sem svipa til Íslands í legu og einstaks lífríkis hafi góðar sögur að segja af því að taka upp gæludýrapassakerfi. Sem dæmi má nefna Bretlandseyjar, sem áður voru með 6 mánaða einagrun. Unnið var nýtt áhættumat fyrir Bretlandseyjar sem sýndi fram á að virkni þeirra forskilyrða sem nú þegar eru viðhöfð á Íslandi, þ.e. bólusetningar, sníkjudýrameðhöndlanir, og blóðsýnagreiningar til staðfestingar hundaæðismótefnis, sé svo áhrifarík að þeir felldu niður einangrun með öllu.
Áhættumat Bretlandseyja var unnið árið 2000 og sýndi fram á áhættu á einu hundaæðissmiti á hverjum 211 árum. Þorgerður Ösp segir að ef þær tölur eru lauslega aðlagaðar hlutfallslega að Íslandi miðað við íbúafjölda megi ætla að hættan á hundaæðissmiti á Íslandi, ef einangrun gæludýra yrði lögð af, sé eitt smit á hverjum fjörtíu þúsund árum.
Þvingaður aðskilnaður mannréttindabrot
Telur Þorgerður Ösp jafnframt að fjögurra vikna einangrun gæludýra, og þar með þvingaður aðskilnaður eiganda og gæludýrs, sé ekki í samræmi við reglugerðir um dýravelferð. Í skýrslunni vitnar hún meðal annars í rannsóknir sem sýna fram á að aðskilnaðarkvíði dýra er umfangsmeiri en það sem þekkist hjá mannfólki, og dýr taka eigendur sína fram yfir aðrar manneskjur fyrir umönnun.
Mikil vöntun er á sérhæfðum vinnuhundum, svo sem leiðsöguhundum fyrir blinda og björgunarhundum. „Einangrunin getur sett þjálfun þeirra miklar skorður og er framkvæmd á því lífsstigi hunds að hún getur hreinlega orðið til þess að eyðileggja möguleika hundsins á áframhaldandi vinnu,“ segir hún.
Þorgerður Ösp telur einnig að fólk, sem reiðir sig á þjónustu leiðsögu- eða annarra þjónustuhunda, geti ekki ferðast með dýr til og frá landsins þar sem einangrunin geti haft alvarleg áhrif á þjálfun hundsins. Þá megi ætla að þetta sé ekki einungis brot á réttindum fatlaðra, heldur gangi þvingaður aðskilnaður eiganda og gæludýrs í raun svo langt að vera mannréttindabrot.
Vinnubrögð þarf að endurskoða
Óljóst er hver ber ábyrgð á dýrunum á meðan þau dvelja í einangrun og eru þau ekki á neinn hátt tryggð fyrir slysum. Þorgerður Ösp segir að dæmi séu um að dýr hafi slasast í einangrun og eiganda boðið að senda það aftur út til útflutningslandsins, láta það vera slasað það sem eftir er dvalarinnar eða að láta aflífa dýrið. Reglugerðirnar sem stýra verkferlum í kringum innflutning dýra þurfi yfirhalningu, enda vísi þær í áhættumat sem byggt er á sandi. Telur hún þetta ástand óviðunandi og breytingar á lögum löngu tímabærar og nauðsynlegar.