Jon Henley, blaðamaður breska blaðsins The Guardian, sem vann umfjöllun um viðskipti Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra með eignir í Sjóði 9 í kringum hrunið í samstarfi við Stundina og Reykjavík Media, segir það alrangt að umfjöllunin hafi verið gerð til að koma höggi á Bjarna og Sjálfstæðisflokkinn í aðdraganda kosninga.
Upplýsingarnar sem umfjöllunin byggir á hafi komið til The Guardian snemma í september í stóru gagnamagni úr bankaskjölum og tölvupóstum. Hann hafi í kjölfarið haft samband við íslenska starfsbræður sína 5. september og í kjölfarið hafi þeir byrjað að vinna úr gögnunum. Ákveðið hafi verið að flýta birtingu umfjöllunarinnar vegna til þess að hafa minni áhrif á þær kosningar sem fram undan eru á Íslandi. Það hafi verið gert að undirlagi íslensku blaðamannanna sem komu að vinnslu hennar. Þetta kemur fram í bréfi sem Henley sendi mbl.is.
Segir ummæli Bjarna röng
Tilefni bréfasendingarinnar var að Bjarni sagði í frétt á mbl.is skömmu eftir að umfjöllunin var birt að tilgangur hennar væri augljóslega að koma höggi á sig og Sjálfstæðisflokkinn. Hann sagði enn fremur að Henley hefði sagt sér að „menn hafi legið á þessum gögnum í nokkrar vikur og eru að koma með þau í dag. Það eru tilviljanir í þessu.“
Segir íslensku blaðamennina hafa viljað draga úr áhrifum á kosningarnar
Henley segir í bréfinu að eftir að ríkisstjórnin sprakk 15. september og boðað var til kosninga 28. október þá hafi strax orðið augljóst að umfjöllunin var orðin meira aðkallandi en áður. „Ég vildi vinna á mjög vandaðan og nákvæman hátt úr gögnunum og þótti best ef þau yrðu birt vinnuvikuna sem hófst 16. október eða jafnvel vikuna á eftir.[....]En starfsbræður mínir frá Íslandi töldu að með því að birta fréttina svo skömmu fyrir kosningar myndi það hafa óæskileg áhrif á kosningarnar; þeir vildu birta þetta eins fljótt og mögulegt var og í síðasta lagi í lok vikunnar sem hófst 2. október. Þannig að í staðinn fyrir að vilja fresta birtingu fréttarinnar þar til síðasta föstudag til að valda forsætisráðherranum og flokknum sem mestum skaða ákváðum við að flýta birtingunni um þó nokkrar vikur til draga úr skaðanum.“