Í aðdraganda síðustu kosninga á Íslandi hefur Kjarninn birt kosningaspá Baldurs Héðinssonar. Þar eru fyrirliggjandi skoðanakannanir á fylgi framboða í kosningum vigtaðar og metnar með tilliti til oft falinna þátta sem hafa áhrif á nákvæmni skoðanakannana.
Kosningaspáin er unnin og birt á vef Kjarnans í fjórða sinn fyrir Alþingiskosningarnar 28. október næstkomandi.
„Kosningaspáin býður upp á tvennt sem aðrir bjóða ekki uppá,“ segir Baldur Héðinsson stærðfræðingur og höfundur kosningaspárlíkansins fyrir Ísland. „Í fyrsta lagi tekur hún saman upplýsingar úr öllum fyrirliggjandi skoðanakönnunum á hverjum tímapunkti og vegur þær saman til að gefa gott mat á núverandi stöðu.“
„Í öðru lagi gefur þingmannaspáin mun betra mat á því hverjir möguleikar frambjóðenda eru á að komast inn á þing en nokkur annar miðill býður upp á.“
Þingmannaspáin mælir sénsinn
Baldur hannaði viðbót við kosningaspána fyrir Alþingiskosningarnar í fyrra þar sem hverjum frambjóðanda fyrir sig voru gefnar líkur á því að ná kjöri, miðað við þær upplýsingar sem voru til taks. Þingmannaspáin verður gerð á ný fyrir kosningarnar í ár.
Baldur segir þingmannaspána hafa komið vel út í síðustu kosningum. Til þess að meta það hversu vel tókst til var gerður einfaldur samanburður. „Segjum að 10 frambjóðendur hafi fengið líkur á bilinu 20 til 40 prósent og að meðallíkur þessara 10 frambjóðenda séu 30 prósent. Spáin mundi teljast hitta beint í mark ef þrír af þessum tíu frambjóðendum ná kjöri.“
Spurður hvort frambjóðendur þurfi að skjálfa á beinunum ef þingsætaspáin reiknar litlar líkur á því að þeir komist að bendir Baldur frambjóðendum á að bera sig saman við aðra frambjóðendur. „Ef ég væri frambjóðandi með tíu prósent líkur í þingmannaspánni myndi í ég finna níu aðra þingmenn með svipaðar líkur og segja við sjálfan mig að eitt okkar muni líklega komast á þing.“
Fyrirmyndin er bandarísk
Kosningaspáin íslenska er byggð á erlendu líkani þar sem skoðanakannanir eru vegnar miðað við fyrirfram ákveðnar forsendur og niðurstöðurnar svo lagðar saman. Bandaríska vefsíðan fivethirtyeight.com hefur birt slíkar niðurstöður í um árabil.
„Ég lagðist í mikla vinnu árið 2014 við að greina söguleg gögn um skoðanakannanir og úrslit kosninga og hóf svo að birta kosningaspár fyrir borgarstjórnarkosningar í samvinnu við Kjarnann sama ár,“ segir Baldur.
Kosningaspáin hefur einnig verið unnin fyrir forsetakosningarnar 2016 og Alþingiskosningarnar 2016 og birt á vefnum.
Kosningaspána fyrir komandi kosningar má finna á vef Kjarnans, kjarninn.is/kosningar, eða á vef Baldurs, kosningaspá.is.
Þessi umfjöllun birtist fyrst í Mannlífi, 12. október 2017.