Lionel Messi, Argentínumaðurinn frábæri hjá Barcelona, fór fyrir sínu liði sem fyrirliði í 1-3 sigri Argentínu gegn Ekvador, en með sigrinum tókst Argentínu að gulltryggja sæti sitt í úrslitakeppninni.
Fyrir leikinn var Argentínu í 6. sæti riðilsins en einungis fjögur efstu sætin tryggja sæti í úrslitakeppninni.
Landið í 5. sæti þarf svo að spila umspilsleik um laust sæti. Með sigrinum tókst Argentínu að hífa sig upp í 3. sæti. Síle náði ekki að komast á HM en Suður-Ameríku meistararnir töpuðu 3-0 gegn Brasilíu, sem var langefst í riðlinum.
Í umsögn Skysports um leik Argentínu og Ekvador segir að frammistaða Messi í leiknum hafi verið einhver sú besta sem sést hefur á alþjóðlegu sviði fótboltans.
Honum héldu engin bönd í leiknum, og eftir að Ekvador komst yfir, eftir aðeins 38 sekúndur, var hann óstöðvandi.
Portúgal, með Cristiano Ronaldo fremstan í flokki, tryggði sér einnig sæti á HM með 2-0 sigri á Sviss. Þar með er ljóst að Messi og Ronaldo verða í eldlínunni á HM í Rússlandi, nema að meiðsli setji strik í reikninginn.
Fyrir þessa síðustu umferð voru Argentína og Portúgal ekki búin að tryggja sæti sín á HM, en með sigrum tókst þeim það.
Dregið verður í riðla á HM 1. desember og verður Ísland í pottinum, eins og alkunna er. Ísland er fámennasta landið í sögunni sem nær að tryggja sér sæti í lokakeppni HM.