Norðurslóðir eiga ekki að verða að hraðbraut milli heimshluta og mannkynið verður að standa vörð um náttúruna, sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra í starfsstjórn, í opnunarræðu á Arctic Cirle-þinginu í Hörpu í morgun.
Bjarni sagði íslensk stjórnvöld stefna að því að draga úr losun útstreymis gróðurhúsalofttegunda á Íslandi um 40 prósent, eins og ákveðið hafi verið í aðdraganda Parísarsamkomulagsins árið 2015. Hann sagði jafnframt að Ísland ætlar að standa við Parísarsamkomulagið að fullu.
Alþingi hefur þegar innleitt og staðfest Parísarsamkomulagið á Íslandi en enn hefur ekki verið samnið við Evrópusambandið um það sem er kallað „sanngjörn hlutdeild“ í sameiginlegu markmiði Evrópusambandsins sem Ísland og Noregur eru einnig hluti af.
Vinna við nýja aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum er í bið, eftir að ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar féll 15. september síðastliðinn og þar til ný ríkisstjórn tekur ákvörðun um framhaldið eftir kosningarnar.
Arctic Circle-þingið hófst í Hörpu í Reykjavík í dag, með ávarpi Ólafs Ragnars Grímssonar, Bjarna Benediktssonar og Guðna Th. Jóhannessonar.
Í ávarpi sínu sagði Bjarni að stjórnvöld ríkja á norðurslóðum verði að leyfa náttúrunni að njóta vafans við ákvörðunartöku um nýtingu auðlinda.
Ólafur Ragnar er stjórnarformaður Arctic Circle sem nú er haldið í fimmta sinn. Árlega dregur þingið að áhrifafólk og þjóðarleiðtoga um allan heim. Meðal þeirra sem sækja þingið í ár eru Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra skosku ríkisstjórnarinnar, Patricia Espinosa, framkvæmdastjóri loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, Ségloène Royal, heimskautasendiherra Frakklands.
Eins og nafn þingsins gefur til kynna þá eru málefni norðurslóða til umræðu á Arctic Circle-þinginu. Bráðnun heimskautaíssins er ein helsta birtingarmynd loftslagsbreytinga í heiminum. Ólafur Ragnar segir í viðtali við Kjarnann að ef baráttan á norðurslóðum tapast þá tapist einnig baráttan í loftslagsmálum.