Tryggja verður skilvirkni í tilkynningum og viðbrögðum við sjúkdómum, vanhöldum og slysum á dýrum. Þetta kemur fram í skýrslu starfshóps um endurskoðun löggjafar um dýrasjúkdóma og dýralækna sem skipaður var í maí í fyrra.
Starfshópurinn leggur til að rekin verði öflug stofnun sem sinnir rannsóknum, ráðgjöf og áhættumati vegna dýrasjúkdóma. Þá er lagt til að stofnað verði sérstakt ráð sem fari með leyfisveitingar, réttindamál og endurmenntun dýralækna og heilbrigðisstarfsmenn dýra, og fjalli um kærur, álitamál og fleira.
Lagt er til að í nýjum lögum um heilbrigði dýra sé tilgangi núverandi laga um dýrasjúkdóma og laga um innflutning dýra slegið saman. Þannig yrðu til heildstæð og samræmd lög um heilbrigði dýra, sem hafa þann tilgang að vernda og bæta almennt heilbrigði allra dýra hér á landi, og verjast komu nýrra smitefna til landsins, hindra að þau berist í dýr og breiðist út. Gert er ráð fyrir að áfram verði sérstök lög um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr.
Skýrslan kemur til með að nýtast vel við vinnslu frumvarpa en vinna við þau mun hefjast fljótlega, samkvæmt fréttatilkynningu frá frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Skýrslan er lögð fram til kynningar og er öllum frjálst að koma með athugasemdir eða ábendingar við efni hennar.
Nauðsynlegt að endurskoða lögin
Í skýrslunni kemur fram að á undanförnum árum hafi verið rætt um að nauðsynlegt væri að endurskoða helstu lög sem varða dýraheilbrigði og dýrasjúkdóma. Í desember 2015 lagði yfirdýralæknir til við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að skipaður yrði starfshópur til að endurskoða lögin. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði í maí 2016 starfshópinn sem vann skýrsluna.
Samkvæmt skipunarbréfi starfshópsins er markmið endurskoðunarinnar að búa til heildstæð og samræmd lög um heilbrigði dýra, sem hafi þann tilgang að bæta almennt heilbrigði dýra hér á landi hvað alla sjúkdóma varðar, en ekki eingöngu smitsjúkdóma.
Endurskoða þarf reglugerðir í framhaldinu
Jafnframt er markmiðið að verjast komu nýrra smitefna til landsins, hindra að þau berist í dýr og breiðist út. Skoða á hvort endurskoðuð lög um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr eigi aðeins að taka á réttindum og skyldum starfsstétta sem heyra undir lögin, m.a. hvort ákvæði þurfi að vera um sérstakt lögskipað ráð sem fjalli um störf dýralækna auk skilgreininga á hlutverki yfirdýralæknis, sérgreina-, héraðs- og eftirlitsdýralækna. Fjölmargar reglugerðir hafa verið settar með stoð í umræddum lögum og sumar þeirra þarf einnig að endurskoða í kjölfar endurskoðunar laganna.
Samkvæmt skýrsluhöfundum eru gömlu lögin að stofni til orðin 20 til 25 ára gömul og talsverðar breytingar hafa verið gerðar á þeim og sum ákvæði þeirra orðin úrelt. Þá hefur umtalsverð þróun átt sér stað á þeim sviðum sem lögin fjalla um.
Mikið í húfi
Í skýrslunni segir að þróunin hér á landi líkt og í nágrannalöndum sé í átt til stærri og færri búa hvar sem litið er. Mikið sé í húfi ef upp kemur alvarlegur smitsjúkdómur, sem nauðsynlegt yrði talið að bregðast við með niðurskurði og greiðslu bóta, bæði hvað varðar framleiðslu og fjárhagslegar afleiðingar þar með talið útgjöld ríkissjóðs.
Bent er á að fjöldi gæludýra og fjölbreytileiki þeirra hafi aukist mikið á undanförnum árum og þjónusta við þau gjörbreyst.
Breytingar hafa verið gerðar á þjónustu dýralækna við dýr og dýraeigendur. Hlutverk opinberra dýralækna hefur tekið breytingum og sjálfstætt starfandi dýralæknum hefur fjölgað. Embætti yfirdýralæknis var lagt niður og það sameinað öðrum stofnunum, fyrst í Landbúnaðarstofnun og síðar í Matvælastofnun. Opinberir dýralæknar eru nú eingöngu í stjórnsýslu- og eftirlitsstörfum og hlutverk þeirra hvað varðar samskipti við erlendar eftirlitsstofnanir í tengslum við landbúnaðar- og sjávarafurðir er orðið æ þýðingarmeira.
Löggjöf annarra landa skoðuð
Aðalmarkmiðið er að sett verði lög í þessum málaflokki sem taka mið af því besta sem er að finna í lagasetningum annarra landa og tryggja eins og framast er unnt góða heilbrigðisstöðu íslenskra dýra og bæta hana, eftir því sem kostur er.
Í skýrslunni kemur jafnframt fram að við vinnu sína hafi starfshópurinn haft að leiðarljósi að nýta þau ákvæði sem vel hafa reynst í núverandi lögum, en jafnframt gera tillögur um nýmæli sem uppfylltu ofangreind aðalmarkmið og sem nýtast mættu ráðuneytinu við gerð frumvarpa til nýrra laga. Einnig hafi starfshópurinn kynnt sér löggjöf helstu nágrannalanda á þessu sviði og skýrslur sem varða málaflokkinn og unnar hafa verið fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.