Hæstiréttur á Indlandi hefur fellt niður lagaákvæði sem leyfir mönnum að stunda kynlíf með eiginkonum sínum undir lögaldri. Þetta kemur fram í frétt BBC.
Lagaákvæðið sem um ræðir var hluti af lögum um nauðgun og kom fram í því að kynlíf milli manns og konu væri leyfilegt svo framarlega sem hún væri yfir 15 ára. Lögræðisaldur á Indlandi er 18 ár, þannig að drengir og stúlkur þurfa að vera yfir 18 ára til að samþykkja kynlíf.
Úrskurðinum hefur verið fagnað víðsvegar um heiminn af kvenréttindasamtökum. Þrátt fyrir jákvætt skref í átt að jafnrétti á Indlandi og mannréttindum þá telja sumir sem þekkja til að erfitt verði að framfylgja þessum lögum.
Í dómnum kemur fram að stúlkur undir 18 ára aldri geti kært eiginmann sinn fyrir nauðgun svo framarlega sem þær greini frá ofbeldinu innan árs.
Talsmaður hóps sem beitti sér fyrir breytingunni, Vikram Srivastava, segir að þetta sé tímamótaúrskurður sem leiðrétti sögulegt óréttlæti gegn stúlkum. Ekki væri hægt að nota hjónaband til að mismuna stúlkum.
Í fréttinni kemur fram að erfitt gæti reynst að fylgja lögunum eftir. „Dómstólar og lögregla getur ekki fylgst með hvað gerist í svefnherbergi fólks. Stúlka undir lögaldri sem nú þegar er gift, nær alltaf með samþykki foreldra, hefur venjulega ekki hugrekkið til að fara til lögreglunnar eða dómstóla og kæra eiginmann sinn,“ segir fréttaritari BBC, Geeta Pandey, í Delhi.
Indversk stjórnvöld hafa sagt að barnahjónabönd séu tímaskekkja og að þau séu hindrun þess að ná þróunarmarkmiðum landsins: að útrými fátækt og hungri, að koma á almennri grunnmenntun, jafnrétti, verndun barna og að bæta heilsu kvenna.