Tilkynningum um hegningarlagabrot fækkaði árið 2016 á höfuðborgarsvæðinu í samanburði við árið á undan. Þar af fækkaði auðgunarbrotum en þannig hefur þróunin verið allt frá árinu 2010.
Þar vega þjófnaðarbrot þungt en þeim hefur fækkað verulega undanfarin áratug eða svo. Árið 2016 bárust 2.939 tilkynningar um þjófnaði á svæðinu og hafa ekki borist eins fáar tilkynningar á einu ári síðan 2007.
Þetta kemur fram í skýrslunni Afbrot á höfuðborgarsvæðinu 2016 sem kom út í dag sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gefur árlega út. Þar er að finna upplýsingar um afbrot og þróun þeirra í umdæminu.
Skýrslan er nokkuð ítarleg en í henni er farið yfir alla helstu brotaflokkana og er dreifing brota enn fremur skoðuð sérstaklega, bæði hvað varðar sveitarfélögin í umdæminu og eins í ákveðnum hverfum borgarinnar.
Færri innbrot en áður
Tilkynnt var um 849 innbrot á höfuðborgarsvæðinu eða á bilinu tvö til þrjú innbrot á dag. Tilkynningum fækkaði milli ára, segir í skýrslunni. Um það bil þriðjungur tilkynntra innbrota voru í heimili og um þriðjungur í ökutæki.
Árið 2016 var tilkynnt um 277 kynferðisbrot sem er svipaður fjöldi og árið áður en um 45 prósent tilkynntra kynferðisbrota voru nauðganir. Tilkynningar um bæði kynferðisbrot og ofbeldisbrot voru ámóta margar árin 2016 og 2015 en á sama tímabili fjölgaði hins vegar tilkynningum um umferðarlagabrot allnokkuð.
Lögreglunni bárust 1.197 tilkynningar um ofbeldisbrot árið 2016 eða álíka margar og árið áður. Langflest brotin áttu sér stað frá miðnætti til sjö um morguninn aðfaranótt sunnudags.
Flest hegningarlagabrot í Miðborginni
Ekkert manndráp átti sér stað á höfuðborgarsvæðinu árið 2016.
Skráð voru 1.345 fíkniefnabrot en um það bil 70 prósent allra skráðra fíkniefnabrota er vegna vörslu eða neyslu fíkniefna. Lagt var hald á 30 kíló af maríjúana og um níu kíló af amfetamíni sem er nokkuð minna magn en síðustu ár.
Flest hegningarlagabrotin áttu sér stað í Miðborginni eða um 18 prósent allra brota á höfuðborgarsvæðinu.