The Nordic Web hefur stofnað sjóð sem mun fjárfesta í tíu til fimmtán norrænum sprotafyrirtækjum næstu 12 mánuðina. Þetta kemur fram í tilkynningu frá miðlinum.
Meðal íslenskra fjárfesta sem koma að sjóðnum eru Helga Valfells, Hekla Arnardóttir og Jenný Ruth Hrafnsdóttir hjá Crowberry Capital, Georg Ludviksson hjá Meniga og Kristinn Árni Lár Hróbjartsson hjá Kolibri and Northstack.
Ásamt þeim muni evrópskir fjárfestar taka þátt í verkefninu, Martin Mignot hjá Index Ventures, Christoph Janz hjá Point Nine Capital og Philipp Moehring og Andy Chung hjá AngelList Europe.
Yfir 50 meðlimir verða þátttakendur í nýja sjóðnum, samkvæmt yfirlýsingu frá The Nordic Web, og eru þeir hvaðanæva úr heiminum og með margs konar reynslu að baki. Sjóðurinn mun fjárfesta í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð.
Sjóðurinn mun starfa undir nafni The Nordic Web og er í raun framhald af starfi þeirra. The Nordic Web er fjögurra ára gamall miðill og er markmið þeirra er að gefa norrænum nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum tækifæri til að koma starfsemi sinni á framfæri og vekja athygli á því sem er að gerast í þessum löndum.
Neil Murray, stofnandi The Nordic Web, segist sjálfur vera stoltur af þeim stuðningi sem sjóðurinn hefur fengið en eins og áður segir taka yfir 50 manns þátt í verkefninu. Með því að nýta þekkingu og kunnáttu fjárfestingaraðilana þá sé hægt að hjálpa og styðja við ný sprotafyrirtæki.